Innlent

Gunnar: FME á að sinna brýnni verkefnum

Það er ekki mikið að gera hjá Fjármálaeftirlitinu ef þeir eru að vegast í hlutum sem þessum segir Gunnar I. Birgisson, fyrrverandi formaður stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar. Stjórnmálafræðingur telur að bæjarfulltrúarnir sem sátu í stjórn fari í tímabundið leyfi.

Gunnar I. Birgisson, fráfarandi bæjarstjóri er formaður stjórnarinnar. Ómar Stefánsson situr í stjórninni fyrir hönd Framsóknarflokks og Flosi Eiríksson fyrir Samfylkinguna. Trúnaðarbrestur varð milli Fjármálaeftirlitsins og stjórnar lífeyrissjóðsins en hún er sökuð um að hafa beitt blekkingum og gefa Fjármálaeftirlitinu rangar upplýsingar um lánveitingar sjóðsins, meðal annars til Kópavogsbæjar. Lánveitingarnar námu um 600 milljónum króna þegar mest lét og fóru þær allt upp í tuttugu prósent eigin fé sjóðsins en leyfilegt hámark er tíu prósent. Eftir að ítrekuðum kröfum FME um úrbætur var ekki sinnt kærði eftirlitið starfshætti stjórnarinnar til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra. Brot af þessu tagi geta varðað háum sektum og allt að tveggja ára fangelsi.

Birgir Hermannsson, stjórnmálafræðingur við Háskólann á Bifröst, telur að þeim bæjarfulltrúum sem áttu sæti í stjórn lífeyrissjóðsins sé ekki stætt á því að sitja áfram og eigi að fara í tímabundið leyfi.

Gunnar Birgisson sagði í samtali við fréttastofu í dag að bæjarfulltrúarnir hafi ekki íhugað að segja af sér. Það sé greinilega ekki mikið að gera hjá Fjármálaeftirlitinu fyrst þeir séu að vegast í hlutum sem þessum. Þeir ættu að sinna brýnni verkefnum en þessu. Stjórnin hafi aðeins verið að gæta hagsmuna sjóðsins. Gunnar sagði að lánveiting væri tvískipt. Annars vegar væri skuldabréf upp á 260 milljónir sem hefði hækkað vegna verðbóta og þar með farið yfir leyfileg mörk og hins vegar skammtímalán upp á 300 milljónir. Í því tilviki væri um víxil að ræða. Vextirnir hefðu verið á bilinu 17 til 18% og gerðust ekki betri.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×