Innlent

Síminn sagður beita klækjum

Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi Vodafone, segir Símann ekki bjóða samkeppnishæft verð.
Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi Vodafone, segir Símann ekki bjóða samkeppnishæft verð.

Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi Vodafone, segir ákvörðun kærunefndar útboðsmála um að stöðva innkaupaferli Ríkiskaupa vegna fjarskiptaþjónustusamnings fyrir Landspítalann ekki taka til þess hvort tilboð Vodafone sé löglegt.

„Við viljum árétta að enginn samningur hefur verið gerður á grundvelli útboðsins enda stöðvaðist samningsferlið þegar Síminn kærði málsmeðferð Ríkiskaupa í byrjun júní. Umrædd ákvörðun kærunefndar útboðsmála er heldur ekki endanleg, því nefndin mun taka efnislega afstöðu til kæru Símans síðar þótt hún telji rétt að stöðva innkaupa­ferlið hjá Ríkiskaupum," segir Hrannar og bendir á að ákvörðun kærunefndarinnar sé bráðabirgðaúrskurður sem nái eingöngu til þeirrar ákvörðunar Ríkiskaupa að framlengja gildistíma tilboða sem bárust. Úrskurðurinn hafi því ekkert að gera með lögmæti tilboðsins frá Vodafone - sem fyrirtækið telji að sjálfsögðu fullkomlega lögmætt.

„Það er hins vegar skiljanlegt að Síminn reyni með lagaklækjum að koma keppinautum sínum frá borðinu, því ekki býður hann samkeppnis­hæft verð. Í þessu tilviki bauð Síminn rúmlega fjörutíu milljónum króna hærra en Vodafone, sem hefur þjónustað Landspítalann í fimm ár án þess að nokkurn tíma hafi borið skugga á það samstarf," segir Hrannar, sem kveður Vodafone nú bíða endanlegs úrskurðar kærunefndarinnar.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×