Innlent

22 með þroskahömlun útskrifuðust úr HÍ

Aðalbygging Háskóla Íslands.
Aðalbygging Háskóla Íslands. Mynd/Stefán

Í dag brautskráðust 22 nemendur úr diplómanámi fyrir fólk með þroskahömlun frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands að því er kemur fram í tilkynningu. Námið hófst haustið 2007, en þá var í fyrsta sinn boðið upp á háskólanám fyrir fólk með þroskahömlun hér á landi.

Um var að ræða námsleið á þroskaþjálfabraut sem var skipulögð sem tveggja ára rannsóknartengt þróunarverkefni.

Tilgangur námsins var að veita fólki með þroskahömlun möguleika til fullgildrar samfélagsþátttöku og tóku nemendur þátt í námskeiðum með öðrum nemendum háskólans. Í þeim tilgangi var þróað stuðningskerfi, svonefnt mentorakerfi, þar sem samnemendur veittu diplómanemendum stuðning eftir þörfum og óskum hvers og eins.

Námið var afar fjölbreytt og sem dæmi um námskeið má nefna fötlunarfræði, siðfræði í starfi með fötluðum, upplýsingatækni og miðlun, þjóðsögur, goðsögur og ævintýri, framsögn og leikræna tjáningu, matreiðslu og málun.

Í náminu var lögð áhersla á að tengja saman fræðilegt nám og starfsnám og stunduðu nemendur starfsnám á fjölbreyttum vettvangi, s.s. í skólum, leikskólum, bókasöfnum, félagsmiðstöðvum og þar sem fatlað fólk sækir þjónustu.

Nemendur hafa lýst ánægju sinni með að fá tækifæri til að stunda nám með ófötluðum jafnöldrum sínum og telja það afar mikilvægan þátt í náminu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×