Lífið

Kjaftar kærastann í kaf

„Ég er komin í frí frá útvarpinu, það er rétt," segir Ragnhildur Magnúsdóttir, útvarpskona á Bylgjunni og Létt-Bylgjunni, en glöggir útvarpshlustendur hafa vafalítið veitt því athygli að rödd hennar hljómar ekki á öldum ljósvakans lengur.

Ragnhildur hefur starfað við fjölmiðla í sjö ár og unnið við dagskrárgerð í fullu starfi í útvarpi og sjónvarpi. Hún segist viss um að hún muni sakna starfsins og að allar líkur séu á því að hún setjist við hljóðnemann á ný, hvenær sem það verður. Ástæður þess að Ragnhildur dregur sig í hlé nú eru þær að hún þarf að fara í aðgerð á öxl, vegna bílslyss sem hún lenti í í fyrra.

„Ég vinn svo einhverja hugmynda- og handritsvinnu, það er svona vinna sem ergir ekki meðan á þessari meðferð stendur, þannig að maður hafi eitthvað að gera. Svo verður maður að sjá hvernig þetta þróast," útskýrir Ragnhildur en fyrsta heimildamyndin hennar, From Oakland to Iceland, var á dögunum sýnd á RÚV, MTV-vefnum og kanadísku sjónvarpsstöðinni Movieola.

„Auðvitað mun ég sakna vinnufélaganna," segir Ragnhildur að skilnaði, „útvarpsfólk er með skemmtilegra fólki sem ég hef umgengist. Og að fá þessa útrás í loftinu. Ætli ég kjafti ekki bara kærastann í kaf í staðinn," segir hún kímin og lýkur útsendingu þar með að sinni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.