Innlent

Sakar bæjaryfirvöld um að reisa grjótgarð á einkalandi

Grindavík. Mynd úr safni.
Grindavík. Mynd úr safni.

Bóndinn og áhugaleikarinn Helgi Andersen á Þórkötlustöðum í Grindavík hefur sent formlegt erindi til bæjarstjórnar Grindavíkur vegna grjótgarðs sem yfirvöld reistu á landi hans.

Þannig er mál með vexti að Helgi seldi bænum 25 prósent af óskiptu landi við Þórkötlustaði fyrir nokkru. Svo virðist sem yfirvöld í Grindavík hafi ekki verið með staðarhætti á hreinu að mati Helga og lögfræðings því þeir reistu svo grjótgarðinn á Laufáslandi sem tilheyrir Helga einum og ekki Þórkötlustöðum.

„Ég er stórhneykslaður á þessu," segir Helgi en hann fullyrðir að um talsvert jarðrask sé að ræða. Í bréfi sem hann sendi bæjarstjórn Grindavíkur segist hann áskilja sér rétt gagnvart bænum vegna tjónsins sem yfirvöld eiga að hafa valdið.

Hann útilokar ekki skaðabótamál.

Sjálfur er Helgi á áttræðisaldrinum og hefur búið nær allt sitt líf á Þórkötlustöðum. Hann lék meðal annars draug í kvikmyndinni, Á hjara veraldar, en hún var frumsýnd árið 1983 og leikstýrt af Kristínu Jóhannesdóttur. Þá hefur hann tekið að sér smærri hlutverk en hann kom fram í sjónvarpsmyndinni, Konan í Brimgarðinum, sem ríkissjónvarpið framleiddi fyrir allnokkrum árum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×