Innlent

Fjórðungur barna vitni að ofbeldi gegn móður

Um fjórðungur barna er talinn hafa vitneskju um eða hefur orðið vitni að ofbeldi gegn móður, þar sem heimilisofbeldi á sér stað. Forstjóri Barnaverndarstofu segir upplifun barna geta verið jafn alvarleg og hafi þau orðið fyrir ofbeldinu sjálf.

Tvær rannsóknir voru nýverið gerðar í samræmi við aðgerðaáætlun stjórnvalda til að sporna við ofbeldi á heimilum. Kom meðal annars í ljós að rúm 20 prósent kvenna, á aldrinum 18 til 80 ára, hafa einhvern tímann á ævinni verið beittar ofbeldi af hálfu maka eða fyrrverandi maka. Einnig kom fram í samtölum við mæður að um fjórðungur barna inni á ofbeldisheimilum höfðu orðið vitni að eða vissu um ofbeldið sem átt hafði sér stað. Andleg áhrif af því geta verið mjög alvarleg.

„Það er velþekkt að upplifun barna á heimilisofbeldi getur haft jafn alvarleg áhrif eins og barnið hafi sjálft sætt ofbeldinu," segir Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu.

Þetta hefur skaðleg áhrif á sjálfsmynd einstaklingsins, getur orsakar depurð og önnur geðræn vandamál, auk þess sem þessi börn eru árásarhneigðari og líklegri til að beita önnur börn ofbeldi. Á fullorðinsárum eru þau einnig líklegri til að beita hörku í uppeldi eigin barna.

Á Íslandi hafa ekki verið sértæk úrræði fyrir þessi börn, en barnaverndarnefndir hafa jafnan veitt þeim og foreldrum þeirra stuðning í formi sálfræðiþjónustu. Breytinga er hins vegar að vænta og vinnur Barnaverndarstofa að því að koma á fót sértækri meðferð.

„Við leitum í smiðju Norðmanna sem hafa talsverða reynslu á þessu sviði og vonumst til að verði tilbúið öðru hvoru megin við áramótin," segir Bragi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×