Innlent

Ný Seðlabankalög ef vextirnir lækka ekki

Ríki í ríkinu Vilhjálmur Egilsson sagði á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva að setja yrði ný lög um bankann ef þeir stæðu ekki við markmið um vaxtalækkanir.
fréttablaðið/heiða
Ríki í ríkinu Vilhjálmur Egilsson sagði á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva að setja yrði ný lög um bankann ef þeir stæðu ekki við markmið um vaxtalækkanir. fréttablaðið/heiða

Stjórnvöld verða að taka ráðin af Seðlabankanum og setja ný lög um bankann ef stýrivextir verða ekki lækkaðir verulega á næstu vikum. Þessa skoðun setti Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, fram á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva. Ögmundur Jónas­son heilbrigðisráðherra setti fram sömu skoðun í júní.

„Ég lít svo á að það sé hlutverk ríkisstjórnarinnar að sjá til þess að Seðlabankinn taki þátt í þessu samfélagi eins og aðrir," sagði Vilhjálmur og vitnaði í takmark stöðugleikasáttmálans um að stýrivextir yrðu lækkaðir niður í eins stafs tölu fyrir 1. nóvember. Hann sagði að efnahagslegar forsendur til að halda stýrivöxtum svo háum sem raun ber vitni væru ekki til staðar. Ef fyrirtæki sjá sér hag í því að fjárfesta með lækkun vaxta og ef ráðist er í boðaðar framkvæmdir er Vilhjálmur þess fullviss að samdrætti, sem er spáð, verði snúið til hagvaxtar sem muni nema tveimur til fjórum prósentum á næsta ári.

„Ef það verður samdráttur á næsta ári þá er hann í boði Seðlabankans," sagði Vilhjálmur. Hann sagði óhætt að segja að ófullkomið efnahagslíkan, sem búið væri til í Seðlabankanum, myndi ráða öllu í íslensku samfélagi.

Vilhjálmur tók svo djúpt í árinni að segja að ef breyta þyrfti lögum um bankann til að ná þjóðinni út úr kreppunni þá ætti einfaldlega að ganga í það verk.



Vilhjálmur Egilsson

Þessi skoðun hefur verið sett fram áður. Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra útilokaði ekki í viðtali við Fréttablaðið í byrjun júní að lögum um Seðlabankann yrði breytt. Það ætti við ef bankinn gengi gegn þjóðarhag og efaðist um að sjálfstæði bankans væri skynsamlegt.

„Ef bankinn rís ekki undir því að axla samfélagslega ábyrgð sína, hvers vegna er hann þá ekki færður aftur undir lýðræðislegt ákvörðunarvald?" spurði Ögmundur. Hann sagði sjálfstæði Seðlabankans hluta af peningahyggju liðinna áratuga og sá tími væri á enda runninn.

Um hvort til stæði að breyta lögum um bankann á kjörtímabilinu, sagði Ögmundur:

„Allt hlýtur að vera í stöðugri endurskoðun, lög um Seðlabankann líka. Ef hann er farinn að ganga gegn þjóðarhag, þá hljótum við að taka hans starfsemi til endurskoðunar. Það er sem betur fer ekki bannað með lögum að breyta lögum."

svavar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×