Innlent

Geir segir Jóhönnu fara með rangt mál

Geir Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins kom í pontu á Alþingi í dag undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir þar sem hann spurði Jóhönnu Sigurðardóttur út í samskipti forsætisráðuneytisins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Geir sakaði Jóhönnu um að hafa sagt ósatt þegar hún sagði að fyrstu athugasemdir sjóðsins við nýtt frumvarp um Seðlabanka Íslands yrði að fara með sem trúnaðarmál.

Geir segist hafa grennslast fyrir um málið hjá sjóðnum og fengið þær upplýsingar að það væri íslenskra stjórnvalda að meta hvort upplýsingarnar væru trúnaðarmál.

Geir krafðist þess að upphaflegu athugasemdirnar yrðu birtar og vildi hann fá að vita hvort þær væru að einhverju leyti öðru vísi en þær sem síðar bárust frá sjóðnum. Geir vildi einnig vita hvort Jóhanna hefði í málinu leitað til trúnaðarmanna Íslands hjá AGS.

Jóhanna sagði að Birgir Ármannsson, sem beðið hefur um öll gögn í málinu, myndi að sjálfsögðu fá þau og þá myndi koma fram að AGS hefði óskað eftir því að trúnaður yrði virtur á fyrstu athugasemdunum. Hún mótmælti því þeim staðhæfingum að farið hefði verið rangt með staðreyndir í málinu og sagði hún alvegn á hreinu að engu hefði verið leynt.

Jóhanna svaraði því hinsvegar ekki til hvort hún hefði leitað til trúnaðarmanna Íslands hjá sjóðnum. Þegar Geir kom aftur í pontu vakti hann athygli á því og spurði þingheim hvort það gæti haft með það að gera að aðalmaður Íslands hjá sjóðnum er Davíð Oddsson seðlabankastjóri og varamaður hans Bolli Þór Bollason, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu sem lét af störfum stuttu eftir að Jóhanna tók við ráðuneytinu.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×