Innlent

Lóðarkaupandi segir áhættu nánast enga

Staðurinn er frábær og áhættan af lóðakaupunum nánast engin eftir að borgin breytti skilmálum segir bjartsýnn lóðarkaupandi á Haukdælabraut í Reynisvatnsási. Fréttablaðið/Anton
Staðurinn er frábær og áhættan af lóðakaupunum nánast engin eftir að borgin breytti skilmálum segir bjartsýnn lóðarkaupandi á Haukdælabraut í Reynisvatnsási. Fréttablaðið/Anton

„Það er engin áhætta í þessu lengur,“ segir Þorleifur H. Lúðvíksson, einn fimm sem þáðu einbýlishúsalóð á Reynisvatnsási úr síðasta hópi umsækjenda.

Um 650 umsækjendur voru um 96 lóðir fyrir raðhús, einbýlishús og parhús á Reynisvatnsási í desember 2007. Þeir sem fengu úthlutun hættu flestir við þegar fór að síga á ógæfuhliðina í efnahagsmálunum.

Ágúst Jónsson, skrifstofustjóri framkvæmda- og eignasviðs borgarinnar, segir að í fyrra hafi tvisvar verið reynt að endurúthluta óseldum lóðum. Eftir að borgaráð hafi í nómvember samþykkt hagstæðari greiðsluskilmála og lengri framkvæmdafrest hafi verið haft samband við um eitt hundrað umsækjendur sem enn voru eftir. Þá hafi þessar fimm einbýlishúsalóðir gengið út. Verð lóðanna er 11 milljónir króna sem er óbreytt frá fyrstu úthlutun. Hægt er að greiða tíu prósent út og afganginn á átta árum með fjögur prósent vöxtum og verðtryggingu.

Auk Þorleifs, tryggðu bæði faðir hans og bróðir sér lóð við Haukdælabraut. Fyrir átti systir þeirra bræðra lóð við þessa götu. Þorleifur segist skilja að einhverjir telji þau fífldjörf á krepputímum en telur það byggt á þekkingarleysi.

„Ég efast um að fólk hafi áttað sig á því að kvaðir á þessum lóðum hafa breyst mikið. Nú hafa menn tvö ár til að byrja að byggja. Útborgun er lítil og menn geta skilað lóðinni hvenær sem er og fengið það sem þeir hafa lagt út endurgreitt með verðbótum,“ útskýrir Þorleifur.

Fjölskylda Þorleifs á verktakafyrirtæki og Þorleifur segir það vissulega koma til greina að byggja hús og selja. Hann hafi þó í huga að flytja með eigin fjölskyldu í húsið. Báðir búi bræðurnir þegar í hverfinu handan Reynisvatns og líki vel. Nýja svæðið sé frábært og margir þeirra sem sótt hafi um lóðir þar séu einmitt íbúar í Grafarholti.

„Byggingarkostnaður hefur lækkað töluvert og ég tel mig geta farið úr raðhúsi í einbýlishús fyrir svipað verð. Hugmyndin er sú að ef ég næ að selja íbúðina er ódýrar fyrir mig að byggja núna en það var fyrir hálfu ári. En ef íbúðarverð lækkar mikið fæ ég minna fyrir íbúðina mína og þá fer ég einfaldlega ekki af stað,“ segir Þorleifur.

Ágúst Jónsson segir að enn séu eftir liðlega þrjátíu lóðir á Reynisvatnsási. Búast megi við því að þær og lausar lóðir í Úlfarsárdal verði auglýstar fyrir páska.

gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×