Innlent

Birgir krefur Jóhönnu um upplýsingar varðandi AGS

Birgir Ármannsson.
Birgir Ármannsson.

Birgir Ármannsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í Viðskiptanefnd hefur sent Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra bréf þar sem hann óskar eftir upplýsingum vegna samskipta ráðuneytisins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Í bréfinu segir Birgir að treglega hafi gengið að fá upplýsingar um samskipti íslenskra ráðamanna við sjóðinn í tengslum við nýsmíðað frumvarp um Seðlabanka Íslands „og að einhverju leyti virðast fullyrðingar í málinu stangast á. Tel ég því óhjákvæmilegt að snúa mér beint til ráðuneytisins og óska eftir þessum upplýsingum á grundvelli upplýsingalaga," segir Birgir.

Birgir óskar eftir upplýsingum varðandi eftirfarandi:

  • Yfirlit yfir öll samskipti forsætisráðuneytisins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem tengjast Seðlabankafrumvarpinu frá og með 4. febrúar til dagsins í dag. Átt er við öll símtöl, fundi og skrifleg samskipti sem varða þetta mál.



  • Afrit af öllum skráningum hjá forsætisráðuneytinu sem varða samskiptin við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn á þessu tímabili og tengjast þessu máli. Þar er átt við dagbókarfærslur, skráningu í málaskrá og fundargerðir, eftir því sem við á.



  • Afrit af öllum bréfum, tölvubréfum, skeytum eða öðrum skriflegum gögnum, formlegum eða óformlegum, sem gengið hafa á milli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og forsætisráðuneytisins frá og með 4. febrúar til dagsins í dag og varða Seðlabankafrumvarpið.

Að mati Birgis er það ótvíræð skylda forsætisráðuneytisins að afhenda þessi gögn og segist hann ekki telja að undanþágur frá upplýsingaskyldu stjórnvalda eigi við í þessu sambandi.

„Því verður ekki með neinu móti haldið fram, að mikilvægir almannahagsmunir krefjist þess að leynd sé haldið yfir „tæknilegum athugasemdum" við lagafrumvarp sem komið er til meðferðar á Alþingi," segir Birgir.

„Þvert á móti er rík ástæða til að ætla, að almannahagsmunir krefjist þess að slíkar upplýsingar séu opinberar. Einnig er minnt á að í athugasemdum við 3. gr. frumvarps til upplýsingalaga er skýrt tekið fram að stjórnvald geti ekki heitið þeim trúnaði sem gefur upplýsingar. Slíkt verði ekki gert nema að ótvírætt sé að upplýsingarnar falli undir eitthvert af framangreindum undanþáguákvæðum," segir Birgir að lokum um leið og hann segist vænta skjótrar meðferðar á málinu í ráðuneytinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×