Innlent

Styðja Guðjón Arnar áfram sem formann

Guðjón Arnar Kristjánsson
Guðjón Arnar Kristjánsson

Aðildarfélög Frjálslynda flokksins í Norðausturkjördæmi lýsa yfir eindregnum stuðningi við Guðjón Arnar Kristjánsson til áframhaldandi setu sem formaður flokksins.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá félögunum nú í kvöld. Þar segir að við þær aðstæður sem nú séu telji þau brýnt að halda í heiðri þeim stefnumálumk sem Frjálslyndi flokkurinn stendur fyrir og hefur gert alla tíð frá stofnun hans.

Þar segir einnig að stefnuskrá flokksins sé einstök meðal íslenskra stjórnmálaflokka, enda sé hún aðall hans og auðkenni.

„Guðjón Arnar hefur í raun orðið persónugervingur flokksins og fáir þekkja betur til þeirra aðstæðna sem stefnumál hans höfða til. Nú sem aldrei fyrr er nauðsynlegt að Frjálslyndi flokkurinn sé trúr sínum hugsjónum og teljum við engum betur treystandi til að framfylgja þeim, sem og til að leiða flokkinn í komandi kosningum, en núverandi formann," segir í tilkynningunni sem stjórnir kjördæmisráðs og svæðisfélaga flokksins í Norðausturkjördæmi skrifa undir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×