Lífið

Úr banka í keramik

Heldur jólamarkað Bjarni segist nýta allan tíma utan bankans í keramikið og heldur jólamarkað á vinnustofu sinni 28. og 29. nóvember.Fréttablaðið/Pjetur
Heldur jólamarkað Bjarni segist nýta allan tíma utan bankans í keramikið og heldur jólamarkað á vinnustofu sinni 28. og 29. nóvember.Fréttablaðið/Pjetur

Bjarni Sigurðsson fluttist til Íslands árið 2007 eftir að hann lauk keramiknámi í Danmörku. Hann starfar nú sem gjaldkeri í Íslandsbanka, en sinnir listinni öllum stundum utan vinnu og heldur jólamarkað á vinnustofu sinni 28. og 29. nóvember.

„Maður lifir ekki alveg á listinni en þegar ég réði mig inn í bankann sagði ég að keramikið væri númer eitt og bankinn númer tvö, svo það er tekið tillit til þess," segir Bjarni Sigurðsson, leirkerasmiður og gjaldkeri í Íslandsbanka. Bjarni lauk fjögurra ára keramiknámi frá Árósum í Danmörku og fluttist til Íslands 2007. Þá kom hann sér upp 45 fermetra vinnuaðstöðu og mun halda þar jólamarkað helgina 28. og 29. nóvember.

„Ég hef tekið eftir því að það er ekki mikið um svokallaðar jólastofur, eða „julestue" hér á landi, en í Danmörku er þetta hefð sem er mikið fjallað um. Fólki finnst gaman að koma á vinnustofuna og sjá hvernig umhverfið er. Maður leyfir þá gjarnan krökkunum að koma við leirinn og búa til eitthvað smá," útskýrir Bjarni og segist aðallega einbeita sér að skúlptúrum frekar en nytjalist.

„Ég geri til dæmis skálar og vasa í ýmsum stærðum. Íslands veggverk og hitaplatta byrjaði ég svo að gera fyrir ári, í hruninu. Þá var maður í miðjum látunum í bankanum og öllum svívirðingunum. Þegar maður kom heim hafði maður enga orku til að vinna í leirnum, en þá datt þetta inn og nú er ég að þróa þetta í kökubakka og fleira," segir Bjarni og vonast til að sjá sem flesta á jólamarkaði í vinnustofu sinni í Hrauntungu 20, Hafnarfirði, milli kl. 11 og 19 helgina 28. og 29. nóvember. alma@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.