Innlent

Skattahækkanir afla tíu milljarða á árinu

Heimir Már Pétursson skrifar

Skattar og gjöld verða hækkuð um tíu milljarða og skorið verður niður og sparað fyrir sömu upphæð á þessu ári samkvæmt frumvarpi sem lagt verður fram á Alþingi á fimmtudag. Átta prósenta skattur verður lagður á tekjur umfram sjö hundruð þúsund á mánuði.

 

Formenn stjórnarflokkanna sýndu fréttamönnum aðeins á spilin varðandi þær skattahækkanir og niðurskurð sem framundan er í aðgerðum sem stefnt er að að leggja fram á Alþingi á fimmtudag og afgreiða til nefndar á föstudag, ef samkomulag næst við stjórnarandstöðuna um þá málsmeðferð. Stefnt er að því að stoppa í 20 milljarða viðbótarhalla á fjárlögum þessa árs með sparnaði og auknum tekjum.

 

Allar skattabreytingar tækju gildi frá og með 1. júlí. Átta prósenta hátekjuskattur verður lagður á tekjur yfir 700 þúsund krónum á mánuði. Þannig að einstaklingur með 800 þúsund krónur í mánaðarlaun greiðir átta þúsund aukalega í tekjuskatt með staðgreiðslunni. Þá verður fjármagnstekjuskattur hækkaður úr 10 prósentum í 15 prósent, sem skila á sex milljörðum á þessu ári.

 

Áætlað er að hátekjuskatturinn gefi töluverðar tekjur strax á þessu ári, eða tvo milljarða og fjóra milljarða á ársgrundvelli.Þá er áætlunin að hækka tryggingagjald þannig að það skili 12 milljörðum í umframtekjur til ríkissjóðs, en gjaldið stendur undir atvinnuleysistryggingasjóði sem er að tæmast.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×