Innlent

Upplýsingum leynt í þágu sérhagsmuna

Aðalsteinn Hákonarson óttast að hagsmunir viðskiptavina endurskoðenda hafi verið svo miklir að þeir hafi gefið eftir til að vera viðskiptavinum sínum þóknanlegir. mynd/hari
Aðalsteinn Hákonarson óttast að hagsmunir viðskiptavina endurskoðenda hafi verið svo miklir að þeir hafi gefið eftir til að vera viðskiptavinum sínum þóknanlegir. mynd/hari

Dæmi eru um að á undan­förnum árum hafi eignir verið færðar inn á ársreikninga fyrirtækja á hærra verði en innstæða hafi verið fyrir. Þannig hafi verið reynt að leyna upplýsingum í þágu sérhagsmuna og í þágu stjórnenda fyrirtækjanna. Þetta segir Aðalsteinn Hákonarson, forstöðu­maður eftirlitssviðs Ríkis­skattstjóra og endurskoðandi.

„Eignir voru oft tilgreindar mun hærra en fengist hefði fyrir þær í sölu," segir Aðalsteinn. Óttast Aðalsteinn að hagsmunir viðskiptavina endurskoðenda hafi verið svo miklir að endurskoðendur hafið gefið eftir til að vera viðskiptavinum sínum þóknanlegir.

Einnig segir hann að endurskoðendur hafi líklega ekki staðið nógu fast á bremsunni.

„Viðskiptavinurinn getur alltaf sagt þeim upp ef hann er óánægður með niðurstöðu ársreikninganna," segir Aðalsteinn.

Þóknanir til endurskoðunar­fyrirtækja voru á undanförnum árum um fimmtán milljarðar króna á ári, að sögn Aðalsteins. Þriðjungur hafi verið þóknun fyrir eiginleg endurskoðendastörf en tveir þriðju annars konar þjónusta eins og skattaráðgjöf og skipting fyrirtækja upp í önnur minni fyrirtæki.

„Það er viss tvískinnungur í því að vera með eftirlitið og vera einnig að ráðleggja viðskipta­vininum," segir Aðalsteinn.

Endurskoðendur firrtu sig oft ábyrgð í viðtölum eftir bankahrunið með því að vísa í alþjóðlega staðla, að mati Aðalsteins. Hann segir þessa staðla hins vegar vera túlkaða rúmt og kalla þar af leiðandi á skynsamlegt mat og rökvísi af hálfu þeirra sem beiti þeim.

„Ég óttast að menn hafi gleymt ákveðnum boðorðum í þessum alþjóðlegu stöðlum við gerð ársreikninganna," segir Aðalsteinn.

Vegna þeirra miklu hagsmuna sem endurskoðendur hafa af því að halda í viðskiptavini sína hefur Aðalsteinn lagt til að sett verði í lög að endurskoðendur verði skipaðir til fimm ára í senn og ekki sé hægt að víkja þeim úr starfi nema þeir hafi brotið af sér.

Framkvæmdastjóri Félags löggiltra endurskoðenda vildi ekki tjá sig um málið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×