Lífið

Steindi semur um átta þætti

Steindi (til hægri) og Ágúst Bent byrja með nýja gamanþætti á Skjá einum á næsta ári.fréttablaðið/pjetur
Steindi (til hægri) og Ágúst Bent byrja með nýja gamanþætti á Skjá einum á næsta ári.fréttablaðið/pjetur

Samningar hafa náðst um að nýir gamanþættir með Steinda og Ágústi Bent hefji göngu sína á Skjá einum í lok janúar.

„Þetta leggst vel í okkur. Við óskum öllum grínunnendum Íslands til hamingju,“ segir Steindi Jr. Þættirnir ganga undir vinnuheitinu Steindin okkar og verða átta talsins. „Þetta verða sketsaþættir en samt ekki þessi venjulega formúla,“ segir hann. „Núna erum við að eyða öllu púðrinu okkar í að skrifa á fullu því þetta verða mjög margir sketsar.“ Stefnt er að því að tökur hefjist 15. október og sjá þeir félagar algjörlega um að klippa þættina og taka þá upp.

Steindi vakti fyrst athygli á netinu með sketsum sínum og varð síðan enn þá vinsælli eftir gríninnslög sín í þáttunum Monitor á Skjá einum í sumar. „Þetta verður virkilega skemmtilegt. Þetta er svolítið beittur húmor og þjóðlegur en stundum svolítið dónalegur. Mér finnst vera of lítið af íslensku gríni í gangi og finnst það fagnaðarefni fyrir alla þegar eitthvað svona dettur í gang,“ segir hann og bætir við að þjóðþekktir einstaklingar muni koma við sögu í þáttunum.

Grallararnir Sveppi og Auddi komu að máli við Steinda og Ágúst fyrir skömmu og vildu fá þá til að gera gríninnslög fyrir sinn þátt en ekkert varð af því. „Við fórum á fund með þeim og okkur leist mjög vel á það sem þeir voru að segja. Það væri virkilega skemmtilegt að vinna með þeim í framtíðinni en það sem við vorum að bíða eftir var okkar eigin þáttur og við ákváðum slá til núna,“ segir Steindi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.