Erlent

Eyru og nef skorin af Afgana þegar hann ætlaði að kjósa

Eyru og nef voru skorin af átta barna föður í fjallahéruðum Afganistans þegar hann reyndi að kjósa í forsetakosningunum í landinu fyrr í mánuðinum. Hann kennir Talíbönum um. Bandarískur hershöfðingi segir að endurskoða þurfi baráttuna gegn þeim eigin hún að hafa áhrif. Við vörum við myndunum sem fylgja sjónvarpshluta þessarar fréttar.

Talíbanar hótuðu ofbeldisverkum þegar kosið var um forseta tuttugasta þessa mánaðar. Fólki var hótað limlestingum myndi það kjósa. Lal Mohammed þurfti að fara um langan veg til að nýta sér kosningarétt sinn. Hann segir að Talíbanar hafi orðið á vegi sínum. Þeir hafi skorið af honum nefið og bæði eyrun vegna þess að hann hafi ætlað að kjósa. Síðan börðu þeir hann til óbóta með hríðskotariffli.

Flytja varð Lal um langan veg, alla leið til Kabúl, svo hann kæmist undir læknishendur.

Talið er að nærri sjö hundruð kærur um svik og ofbeldisverk í kosningunum þurfi að rannsaka því þau geti haft áhrif á úrslit þeirra. Atkvæði eru enn talin en ekki er búist við endanlegum úrslitum fyrr en um miðjan septembermánuð hið fyrsta. Samkvæmt nýjustu tölum hefur Hamid Karzai, sitjandi forseti fjörutíu og fjögur komma átta prósent atkvæða en helsti andstæðingur hans Abdúlla Abdúlla þrjátíu og þrjú komma tvö.

Í dag birti Stanley McChrystal, hershöfðingi, sem í vor tók við stjórn bandaríska herliðsins í Afganistan, skýrslu um stöðu mála í landinu. Segir hann að endurskoða þurfi stefnu hersins í Afganistan ef hún eigi að bíta á Talíbönum. Afganar eigi í trúnaðarkreppu því að líf þeirra hafi ekki batnað þó hert hafi verið á hernaði gegn Talíbönum. Koma þurfi til móts við vígamenn og útvega þeim lífsviðurværi, þannig fækki í röðum Talíbana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×