Á fyrsta blaðamannafundi Gylfa Magnússonar sem ráðherra gerði hann grein fyrir stöðu ríkisbankanna þriggja og sagði þá alla vel starfhæfa. Áréttuð er yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um að innistæður í innlendum bönkum og sparisjóðum hér á landi séu tryggðar að fullu.
Þeir viðskiptavinir bankanna sem sjá ekki fram á ráða við skuldirnar geta hins vegar ekki vænst þess að fá niðurfellingu skulda að hluta. Í einhverjum tilvikum verði þó að afskrifa skuldir í gegnum nauðasamninga eða gjaldþrot. Ríkisstjórnin muni reyna að gera sitt til að sem fæstir lendi í þungbærum vandræðum, annað en að afskrifa skuldir.