Innlent

Brotið á Klæðningu

Íshella 7 Skráð fasteignamat þessarar eignar, sem hýsir Klæðningu, er 12,3 milljónir króna. Á henni hvíla hins vegar 210 milljóna króna skuldir.Fréttablaðið/stefán
Íshella 7 Skráð fasteignamat þessarar eignar, sem hýsir Klæðningu, er 12,3 milljónir króna. Á henni hvíla hins vegar 210 milljóna króna skuldir.Fréttablaðið/stefán

Héraðsdómur Reykjaness hefur fellt úr gildi árangurslaus fjárnám sem gerð voru hjá Klæðningu að kvöldi 12. október síðastliðinn. Fjárnámin voru alls 24 og hafa sextán þeirra þegar verið úrskurðuð ólögmæt vegna vinnubragða sýslumannsfulltrúans sem þau framkvæmdi.

Fulltrúi Sýslumannsins í Kópavogi bankaði upp á hjá stjórnarformanni Klæðningar kvöldið 12. október vegna þess að hann hafði ekki sinnt ítrekuðum boðum um að mæta á skrifstofu sýslumanns til fjárnámsins, vegna samtals sextíu milljóna króna skulda. Óskaði fulltrúinn eftir að stjórnarformaðurinn benti á eignir til að gera fjárnámið í.

Stjórnarformaðurinn vísaði á fasteign að Íshellu í Hafnarfirði, sem hýsir höfuðstöðvar fyrirtækisins, og 62 milljóna kröfu sem Klæðning átti á nýlegan kaupanda að fasteigninni. Það taldi stjórnarformaðurinn nóg.

Fulltrúinn var ósammála og taldi eignina einskis virði, enda væri skráð fasteignamat hússins aðeins 12,3 milljónir en áhvílandi skuldir á því hins vegar 210 milljónir króna. Fulltrúinn lauk síðan fjárnáminu sem árangurslausu, sem þýðir að innan þriggja mánaða geta þeir sem kröfu eiga á félagið krafist þess að það verði tekið til gjaldþrotaskipta.

Lögmaður Klæðningar kærði framgöngu fulltrúans með þeim rökum að honum hafi í fyrsta lagi borið að láta fara fram mat á eigninni, í stað þess að styðjast við gögn annars staðar frá, og í öðru lagi hafi átt að gefa stjórnarformanninum kost á að benda á aðrar eignir til að gera fjárnám í.

Á þessi rök féllst héraðsdómur, jafnvel þótt sýslumaður hafi mótmælt þeim og bent á að lögum samkvæmt skuli sýslumannsembættið meta virði eignarinnar ef vafi er um það, og að fulltrúinn sem fór á staðinn hafi búið yfir nægri þekkingu og hæfni til að framkvæma það mat.

Héraðsdómur felldi fimm fjárnámanna úr gildi fyrir helgi og ellefu til viðbótar í gær. Ekki fór fram munnlegur málflutningur í afgangi málanna og verður þeim lokið á næstunni. Magnús Guðlaugsson, lögmaður Klæðningar, segir ljóst að niðurstaðan þar verði sú sama.

Magnús á von á að menn reyni í kjölfarið ný fjárnám hjá félaginu.

stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×