Erlent

Hádegisverðurinn er aldrei ókeypis

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Humar er ekki ódýrasta fæða sem sögur fara af en 123.000 krónur er kannski fullmikið af því góða fyrir humar, pasta og hvítvínsglas.
Humar er ekki ódýrasta fæða sem sögur fara af en 123.000 krónur er kannski fullmikið af því góða fyrir humar, pasta og hvítvínsglas. MYND/Reuters

Ítölsk yfirvöld hafa látið loka sögufrægum veitingastað í Róm eftir að japönsk hjón voru rukkuð um tæpar 700 evrur fyrir hádegisverð.

Þeir vita það sem til þekkja að það er allt annað en ódýrt að vera ferðamaður í ítölskum stórborgum og sennilega slá Feneyjar og Róm öll met í þeim efnum. Í Feneyjum hækkar verðið ört eftir því sem nær dregur Markúsartorginu og þegar komið er á sjálft torgið liggur við að kaffibollinn þurfi að fara á raðgreiðslur til 12 mánaða. Auk þjórfjár innheimta veitingahúsin þar stefgjöld fyrir lifandi tónlist sem leikin er á torginu og nægir að greina megi óm af tónlistinni í fjarlægð til að gjaldið sé lagt á.

Það tók þó út yfir allan þjófabálk sem japönsk hjón lentu í á Il Passetto-veitingahúsinu við Navona-torgið í Róm en eftir að hafa gætt sér á humri og pasta fengu þau reikning upp á litlar 694 evrur, jafnvirði rúmlega 123.000 króna. Þar af voru 20.000 krónur þjórfé svo þjónustan hefur vonandi verið þokkaleg.

Il Passetto er 149 ára gamalt veitingahús og hafa ekki ómerkari persónur en Charlie Chaplin og Grace Kelly setið þar til borðs, svo dæmi séu tekin. En hingað og ekki lengra segir Gianni Alemanno, borgarstjóri Rómar, sem ætlar aldrei að leyfa Il Passetto að opna dyr sínar á ný. Að auki hefur hann fyrirskipað að óeinkennisklæddir lögreglumenn skuli með reglulegu millibili snæða undir fölsku flaggi á veitingahúsum Rómar og fylgjast þannig með okrinu.

Ekki laug Friedman þegar hann sagði að hádegisverðurinn væri aldrei ókeypis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×