Lífið

Þrjú hundruð þátttakendur

Anna Hildur Hildibrandsdóttir og Kamilla Ingibergsdóttir sem hafa umsjón með You Are In Control. fréttablaðið/valli
Anna Hildur Hildibrandsdóttir og Kamilla Ingibergsdóttir sem hafa umsjón með You Are In Control. fréttablaðið/valli
Þátttakendur í tónlistarráðstefnunni You Are In Control sem hefst í Reykjavík í dag verða um þrjú hundruð talsins. Á síðasta ári voru þeir 160 og því er aukningin á milli ára um fjörutíu prósent, sem verður að teljast ansi vel af sér vikið.

„Við erum rosalega ánægðar," segir verkefnastjórinn Kamilla Ingibergsdóttir. „Það skemmtilega er að þetta eru álíka margir karlar og konur. Það var markmið sem við settum í byrjun og höfum náð að halda því." Anna Hildur Hildibrandsdóttir hjá ÚTÓN bætir við: „Það er alveg frábært að sjá aukningu á milli ára því það hafa allir verið að velta sér upp úr kreppunni. Við ætluðum að hafa þetta tvö hundruð manna viðburð þannig að ráðstefnan hefur vaxið hraðar en við áttum von á." Af þessum þrjú hundruð gestum verða um sextíu útlendingar, þar af 23 fyrirlesarar og um tíu blaðamenn. Á meðal fyrirlesara verða Sigurjón Sighvatsson kvikmyndaframleiðandi og Bretinn David Birss frá Ogilvy, einni stærstu markaðsskrifstofu heims.

Nýr liður hefur bæst við dagskrána þar sem fólk getur hitt fyrirlesarana á svokölluðum hraðstefnumótum á Hilton Nordica-hótelinu þar sem ráðstefnan verður haldin. Panta þarf tíma og verða fimm til tíu mínútur gefnar með hverjum og einum þeirra þar sem rætt verður um tónlistarbransann. „Þetta er mikilvægur grundvöllur fyrir fólk til að mynda tengingar," segir Kamilla.

Norðurlandastofnun hefur einnig kallað eftir því að fá niðurstöður úr vinnusmiðju í von um að tengja viðskiptaumhverfi hins skapandi geira við opinbera geirann. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.