Lífið

Fékk föt hjá mömmu vinar síns

Nýtt myndband við lag hljómsveitarinnar Berndsen hefur vakið nokkra athygli og þykir sérstaklega vel gert.
Nýtt myndband við lag hljómsveitarinnar Berndsen hefur vakið nokkra athygli og þykir sérstaklega vel gert.
Tónlistarmaðurinn Davíð Berndsen vakti nokkra athygli fyrir tónlistarmyndbandið við lagið sitt Super­time, sem var frumsýnt í sumar. Nú er annað myndband komið í spilun á Youtube.com og þykir ekki síðra. Myndbandið er við lagið Lover In The Dark, sem er titillag væntanlegrar plötu hljómsveitarinnar.

„Ég fór alla leið til Svíþjóðar til að gera myndbandið. Tveir sænskir strákar, Farzad Farzaneh og Viktor Gårdsäter, sem vinna við myndbandagerð vildu taka verkefnið að sér og buðu mér út í gegnum tengslanet. Myndbandið er gert í „stop-motion“ sem þýðir að það er sett saman úr fjölda ljósmynda. Ég þurfti að standa á öðrum fæti í tæpa fjórtán klukkutíma á meðan verið var að taka myndirnar og búninginn sem ég klæðist fékk ég að hluta til hjá mömmu vinar míns sem vinnur sem flugfreyja,“ segir Davíð.

Hljómsveitin Berndsen samanstendur af Davíð sjálfum og Sveinbirni Thorarensen, sem starfar einnig undir nafninu Hermigervill. „Það er von á fyrstu plötunni frá okkur innan skamms, þangað til gerum við bara nógu mikið af flottum myndböndum og vekjum athygli á okkur þannig.“

Berndsen er á meðal þeirra hljómsveita sem munu leika á tónleikahátíðinni Réttum sem hefst í dag. Tónleikarnir eru jafnframt fyrstu tónleikar hljómsveitarinnar. Davíð segist ekki kvíða því að stíga á svið í fyrsta sinn. „Það er ekki hægt að vera kvíðinn þegar maður spilar svona seint því áhorfendur verða orðnir svo fullir.“- sm





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.