Lífið

Útrásarvíkingur í utanlandsreisu

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings, er nú á leið til Suðurheimskautsins, ásamt hópi Íslendinga. Undirbúningur var mikill, en ferðin kostar um 3,5 milljón króna á mann.

Samkvæmt heimildum fréttastofu fer hópurinn ásamt tveimur leiðsögumönnum frá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum, þeim Ívari Erni Svavarssyni og Ívari Finnbogasyni. Leiðangursmenn hafa undirbúið ferðina í nokkurn tíma, en aðstæður á Suðurheimskautinu eru afar erfiðar. Hópurinn er nú staddur í Santíago í Chile, en flýgur frá Punta Arenas, þegar veður leyfir, til Patriot Hills, en þar eru búðir fyrir göngufólk. Stefnan verður síðan sett á Vinson-fjall, hæsta tind Suðurheimskautsins.

Ferðin tekur að lágmarki 2 vikur. Hún gæti þó lengst í annan endann, en oft þarf fólk að bíða til að komast á pólinn eða frá honum vegna veðurs. Samkvæmt upplýsingum frá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum kostar ferð sem þessi þrjár til þrjár og hálfa milljón króna. Fleiri Íslendingar eru á þessum slóðum, en tveir starfsmenn Arctic Trucks, hafa verið með sérútbúna Toyota Hilux bíla á Suðurpólnum, sem ætlaðir eru til að styðja við keppendur og sjónvarpsfólk frá BBC í afar erfiðri gönguskíðakeppni sem er nýhafin. Aðstæður eru gríðarlega erfiðar.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 kom fram að Ágúst Guðmundsson, kenndur við Bakkavör, væri í för með hópnum. Samkvæmt upplýsingum frá Snorra Guðmundssyni upplýsingafulltrúa hjá Bakkavör er Ágúst hins vegar staddur í Bretlandi og var viðstaddur ráðstefnu í Oxford í dag. Beðist er velvirðingar á þessari rangfærslu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.