Lífið

Íslenskt tónskáld semur fyrir endurgerð Karate Kid

Jackie Chan og  Jaden Smith  leika aðalhlutverkin í The Kung Fu Kid sem er endurgerð kvikmyndarinnar Karate Kid sem Ralph Macchio og Pat Morita léku í.  Atli Örvarsson hefur verið fenginn til að semja tónlistina við myndina en hann kveðst ekki enn vita hvernig hún verður, kínversk áhrif muni þó eflaust svífa yfir vötnum.
Jackie Chan og Jaden Smith leika aðalhlutverkin í The Kung Fu Kid sem er endurgerð kvikmyndarinnar Karate Kid sem Ralph Macchio og Pat Morita léku í. Atli Örvarsson hefur verið fenginn til að semja tónlistina við myndina en hann kveðst ekki enn vita hvernig hún verður, kínversk áhrif muni þó eflaust svífa yfir vötnum.
Atli Örvarsson, íslenska kvikmyndatónskáldið í Hollywood, hefur verið ráðinn til að semja tónlistina við endurgerð Karate Kid með Jackie Chan og Jaden Smith í aðalhlutverkum. Jaden þessi er sonur Hollywood-stórleikarans Will Smith en myndinni hefur verið gefið nafnið The Kung Fu Kid.

Eins og margir ættu eflaust að muna voru það Ralph Macchio og Pat Morita sem léku í gömlu myndinni sem naut mikilla vinsælda á níunda áratug síðustu aldar. Atli kveðst hafa verið of gamall fyrir Karate-kid æðið á sínum tíma en viðurkennir að í dag hafi hann nokkuð gaman af myndinni, hún sé hálfgert „cult“. „Og myndin er víst hugsuð sem eldraun fyrir strákinn og ekki seinna vænna, hann er orðinn ellefu ára,“ segir Atli og hlær. Reyndar er forvitnilegt að segja frá því að Bill Conti samdi tónlistina fyrir Karate Kid á sínum tíma, sá og hinn sami og stjórnar tónlistarflutninginum við Óskarinn á ári hverju.

Atli kveðst ekki vita hvernig hann ætli að undirbúa sig fyrir tónsmíðarnar fyrir myndina en hún gerist að mestu leyti í Kína. „Ætli maður fari ekki bara og leigi sér gömlu myndirnar með Bruce Lee. Annars er þetta náttúrulega mynd um krakka fyrir krakka og þegar maður hlustar á kínverska popptónlist í dag þá kemst maður að raun um að hún er ekkert sérstaklega kínversk heldur undir miklum áhrifum frá hinni vestrænu menningu.“

Atli hefur haft í nægu að snúast að undanförnu. Hann er að leggja lokahöndina á tónlistina við kvikmyndina Season of the Witch sem skartar Nicolas Cage í aðalhlutverki en hún gerist á miðöldum. Þar kemur systir Atla, Þórhildur, töluvert við sögu en hún hefur, í gegnum tónlist bróður síns, vakið eftirtekt hjá kvikmyndaframleiðendum fyrir söng sinn. Þá samdi Atli tónlist við nýjan netleik Sony og er að fara aðstoða Hans Zimmer við að klára tónlistina fyrir nýjustu Sherlock Holmes-myndina. Þar eru þeir Robert Downey Jr. og Jude Law í aðalhlutverkum en Guy Ritchie leikstýrir. „Þetta gengur mjög vel núna og maður er auðvitað bara sáttur á meðan svo er.“ freyrgigja@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.