Lífið

Jóhanna syngur jólin inn fyrir Svía

Vinsæl á jólatónleika. Jóhanna Guðrún kemur fram á jólatónleikum í Globen í Stokkhólmi aðra helgina í desember. Þeir hafa notið mikilla vinsælda hjá Svíum undanfarin ár.
Vinsæl á jólatónleika. Jóhanna Guðrún kemur fram á jólatónleikum í Globen í Stokkhólmi aðra helgina í desember. Þeir hafa notið mikilla vinsælda hjá Svíum undanfarin ár.

Jóhanna Guðrún, Eurovision-stjarna okkar Íslendinga, er ein af stjörnum hins árlega Julegalan sem haldið er um alla Svíþjóð ár hvert. Umgjörð tónleikanna minnir á Frostrósar-tónleikana sem haldnir hafa verið hér á landi og notið mikilla vinsælda. Um tvenna tónleikastaði er að ræða, annars vegar í Globen í Stokkhólmi og hins vegar í Karlstadt. Jóhanna mun koma fram á tvennum tónleikum aðra helgina í desember. Augljóst er að öllu er tjaldað til fyrir tónleikana því dýrustu miðarnir kosta tæplega 25 þúsund krónur. Innifalið í því er matur með öllu. Meðal þeirra sem troða upp með Jóhönnu má nefna belgísku söngkonuna Kate Ryan og svo fjölda þekktra sænskra tónlistarmanna. Vinsældir Jóhönnu í Svíþjóð virðast vera þónokkrar en einn þátttakandi í sænska Idolinu, Erik Grönwall, tók sig til og flutti lagið Is it True í nýlegum þætti keppninnar.

Norðurlandabúar virðast því sólgnir í að fá Jóhönnu til að syngja inn jólin fyrir þá. Eins og Fréttablaðið greindi frá fyrir skemmstu þá óskaði danska ríkissjónvarpið, DR, eftir því að Jóhanna myndi syngja á árlegum jólatónleikum þess. María Björk Sverrisdóttir, umboðsmaður Jóhönnu, segir að það séu meiri líkur en minni á að Jóhanna þekkist það boð, enn eigi þó eftir að ganga frá lausum endum.

Hún upplýsir jafnframt að Austur-Evrópuþjóðir hafi tekið miklu ástfóstri við Jóhönnu eftir að diskur hennar, Elvis & Butterflies, kom þar út. „Hún er meðal annars í efsta sæti vinsælustu útvarpsstöðvar Slóveníu og svo hafa Pólverjar tekið henni vel,“ segir María sem býst við þéttskipaðri dagskrá næstu daga. Jóhanna mun þó vera á landinu um þessar mundir og ætlaði meðal annars að fagna fimmtán ára afmæli Söngskólans, þar sem hún er nánast alin upp.- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.