Erlent

Evrópuríki semja um gas við Tyrki

Undirritun afstaðin Jose Manuel Barroso, framkvæmdastjóri ESB, ásamt forsætisráðherrunum Gordon Bajnai frá Ungverjalandi, Werner Fayman frá Austurríki, Recep Tayyip Erdogan frá Tyrklandi, Sergei Stanishev frá Búlgaríu og Emil Boc frá Rúmeníu.fréttablaðið/AP
Undirritun afstaðin Jose Manuel Barroso, framkvæmdastjóri ESB, ásamt forsætisráðherrunum Gordon Bajnai frá Ungverjalandi, Werner Fayman frá Austurríki, Recep Tayyip Erdogan frá Tyrklandi, Sergei Stanishev frá Búlgaríu og Emil Boc frá Rúmeníu.fréttablaðið/AP

Fjögur Evrópusambandsríki undirrituðu í gær samning við Tyrkland um nýja gasleiðslu frá Kákasuslöndunum til Evrópu. Með þessu opnast sá möguleiki að Evrópuríki verði ekki jafn háð Rússlandi um gas og verið hefur.

Nabucco-gasleiðslan, eins og hún hefur verið nefnd, verður 3.300 kílómetra löng og getur flutt allt að 31 milljarð rúmmetra af jarðgasi á ári. Gangi allt áfallalaust verður hún tekin í notkun árið 2014.

„Nabucco mun veita Tyrklandi, Suðaustur-Evrópu og Mið-Evrópu orkuöryggi,“ sagði Jose Manuel Barroso, framkvæmdastjóri Evrópu­sambandsins, þegar samningurinn var undirritaður við hátíðlega athöfn í Tyrklandi í gær.

Fyrst í stað verður samið um flutning á jarðgasi frá Aserbaídsjan, en síðar er vonast til að jarðgas komi frá öðrum löndum í Mið-Asíu og Austur­löndum nær.

Nú er staðan sú að meira en fjórðungur af því jarðgasi, sem notað er í Evrópu, kemur frá Rússlandi, og áttatíu prósent af því eru flutt um gasleiðslur sem liggja yfir Úkraínu.

Síðastliðinn vetur urðu deilur milli Rússa og Úkraínumanna til þess að Úkraínumenn skrúfuðu fyrir gasið frá Rússlandi til Evrópu, með alvarlegum af­leiðingum í sumum Mið-Evrópu­ríkjum, þegar húshitun brást á köldustu vetrarvikunum.

Ekki er þó ætlunin að útiloka Rússa frá markaðnum, heldur er hugmyndin fyrst og fremst sú að jarðgas til Evrópuríkja komi frá fleiri aðilum. Til greina kemur einnig að hluti af gasinu, sem kemur frá Rússlandi, verði fluttur um Nabucco-leiðsluna.

Rússar hafa síðan eigin áform um að leggja nýja leiðslu frá Rússlandi yfir Svartahaf, sem getur flutt gas til Búlgaríu, Rúmeníu, Ítalíu og fleiri Evrópuríkja.

Barroso lagði þó í gær einkum áherslu á að framkvæmdin komi til með að styrkja samband Tyrklands við Evrópusambandið.

„Ég tel að þegar fyrsta gasið fer að streyma, og sumir sérfræðingar hafa sagt að það geti orðið strax árið 2014,“ sagði Barroso, „þá muni þessi samningur opna dyrnar að nýju tímabili í samskiptum Evrópusambandsins og Tyrklands.“

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×