Innlent

Forsjárdeilur skaða börn til langs tíma

Deilur milli foreldra um forsjá skaða börn oft alvarlega og til langs tíma. Tengslarof barna við feður eftir skilnað er ein alvarlegasta atlaga sem unnin er á barni. Þetta er meðal þeirra sem kemur fram í skýrslu Stefaníu Katrínar Karlsdóttur, um aðskilnað barna frá öðru foreldri.

„Þessi skýrsla er í heild sinni staðfesting á því sem að félagið hefur verið að halda fram árum saman. Við höfum bent á mikilvægi málaflokksins, hversu mikið óréttlætið er og nauðsyn þess að við fáum sömu lög og nágranna ríki okkar," segir Lúðvík Börkur Jónsson, formaður Félags um foreldrajafnrétti, áður Félags ábyrgra feðra.

Meðal helstu niðurstaðna Stefaníu er að réttarkerfið vinni seint og oft illa við að afgreiða mál þegar deilur eru milli foreldra um forsjá. Réttarkerfið og félagsþjónustan almennt virðast oft huga meira að hagsmunum mæðra en

hagsmunum barna.

„Á Íslandi eru samtímis a.m.k. 500 börn sem búa við skert lífsgæði og oft alvarlega stöðu vanlíðunar og sorgar vegna deilu foreldra um umgengni og/eða forsjá og vegna tengslarofs við feður. Sérstaklega á þetta við drengi. Flest öll skilnaðarbörn kjósa að verja meiri tíma með feðrum sínum en þeim er leyft eða kleift að gera. 70% þeirra vilja dvelja jafnt hjá báðum foreldrum sínum og 30% sem eftir stóðu vildu eyða umtalsverðum tíma með feðrum." segir í skýrslunni.

Lúðvík telur mikilvægt að lögum verði breytt. „Við erum ekki aftarlega á merinni, heldur aftastir á merinni." Hann segir dómara skorta heimildir sem geri það að verkum að forsjárdeilur hér á landi séu bæði fleiri og harðari en í öðrum löndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×