Innlent

Frestun á mánuði ekki góð leið

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
Ekki er víst að skynsamlegt sé að fresta töku eins mánaðar af fæðingarorlofi þar til eftir þrjú ár segir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir formaður félagsmálanefndar.

Í frumvarpi félagsmálaráðherra um breytingar á fæðingarorlofi er gert ráð fyrir því að foreldrum gefist kostur á því að taka átta mánuði í fæðingarorlof og fá 350 þúsund krónur á mánuði að hámarki eins og nú er, og fresta töku eins mánaðar þar til barnið verður þriggja ára. Þeir mega einnig dreifa fjárhæðinni á fleiri mánuði en þá fellur rétturinn á aukamánuðinum niður.

Sigríður Ingibjörg segir að skoða þurfi alla útreikninga í tengslum við breytingartillögurnar og afleiðingarnar fyrir börn og foreldra, meta kosti og galla. Ekki sé víst að ríkið sé sérlega vel í stakk búið til að greiða aukamánuðinn eftir þrjú ár, meta þurfi hversu stór hluti foreldra muni geyma mánuðinn.

Þar fyrir utan verði að skoða hvernig sveitarfélög séu í stakk búin til að taka fyrr við börnum í daggæslu. Sigríður Ingibjörg bendir á að 1.200 milljónir vanti í sjóðinn til að mæta áætluðum útgjöldum á næsta ári, skera þurfi niður sem því nemur. Nauðsynlegt sé að skoða fleiri leiðir, þar á meðal fyrstu tillögu ráðherra sem fól í sér lækkun hámarksgreiðslna í 300 þúsund.

Frumvarpið verður lagt fram á Alþingi á næstu dögum og lagt fyrir félagsmálanefnd að lokinni fyrstu umræðu eins og venja er.

Guðmundur Steingrímsson, fulltrúi Framsóknarflokksins í félagsmálanefnd, segist ekki sérstaklega hrifinn af hugmyndum sem lúta að styttingu orlofsins. Ef skera þurfi niður eigi frekar að lækka hámarksgreiðslur, en hlífa þeim sem hafa minnst. Hann bendir á að auðveldara sé að endurskoða ákvæði um hámarksupphæð þegar rofar til heldur en að fjölga mánuðum í orlofi. Framtíðarmarkmiðið eigi vitaskuld að vera að lengja það.

- sbt




Fleiri fréttir

Sjá meira


×