Innlent

Icelandair hefur engin afskipti haft af verkfallskosningu

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair segir að félagið hafi engin afskipti haft af kosningum sem standa nú yfir á meðal flugfreyja en verið er að kjósa um hvort heimilað verði að boða til verkfalls.

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins sagði Sigrún Jónsdóttir formaður flugfreyjufélagsins að sér hefðu borist fjöldi athugasemda um að fólk í trúnaðarstörfum hjá Icelandair hefði reynt að hafa áhrif á afstöðu félagsmanna til málsins.

„Icelandair hefur engin afskipti af þessum kosningum og við treystum því að þær fari heiðarlega fram," segir Guðjón í samtali við fréttastofu.

Kosningarnar fara fram í dag og ef verkfallsheimild verður samþykkt er gert ráð fyrir að verkfallið hefjist 2. janúar næstkomandi. Kjaradeilan snýst að sögn Sigrúnar um forgangsréttarákvæði í leiguflugi erlendis og starfsaldursákvæði.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×