Innlent

Hæstiréttur þyngir dóm yfir Jafeti - sektaður um milljón

Hæstiréttur þyngdi í dag dóm yfir Jafeti Ólafssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra VBS fjárfestingabanka en Jafet var dæmdur í héraðsdómi til að greiða 250 þúsund krónur í sekt fyrir brot gegn lögum um fjármálafyrirtæki. Ríkissaksóknari áfrýjaði málinu til Hæstaréttar sem dæmdi Jafet til þess að greiða eina milljón króna í sekt en sæta ella fangelsi í 40 daga.

Að auki skal Jafet greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, tæpar 390 þúsund krónur.

Jafeti var gefið að sök að rjúfa trúnað við Geir Zoega með því að láta lögmanninn Sigurð G. Guðjónsson hafa upptöku að samtali Jafets og Geirs. Í samtali við fréttastofu þegar dómur héraðsdóms féll sagðist Jafet vera alsaklaus af ákærunni, fáránlegt væri að fella dóminn á þennan hátt.

Forsaga málsins er sú að til stóð að Jafet annaðist milligöngu um kaup Fjárfestingafélagsins Grettis, þar sem Sigurður var framkvæmdastjóri, á hlut Geirs í Tryggingamiðstöðinni. Geir hætti við söluna rétt áður en til stóð að gera kaupsamning og sagði hann Jafet í símtali frá því að hann hefði gert samning við aðra um kaup á hlutnum. í símtali og var Sigurður ósáttur við þau málalok og taldi að yfirtökuskylda hafi myndast í ljósi þess að nýju kaupendurnir áttu þegar stóran hlut í TM.

Sigurður sendi þá Fjármálaeftirlitinu erindi og notaði hann hljóðupptökuna frá Jafeti til þess að færa rök fyrir máli sínu. Geir kvartaði þá til FME og sagði að Jafet hefði brotið á sér trúnað. Nokkru síðar, eða í haust, tók FME þá ákvörðun að kæra málið til lögreglu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×