Innlent

St. Jósefsspítali lagður niður

St. Jósefsspítali verður lagður niður og megnið af starfsemi hans flutt til Keflavíkur. Meltingarsjúkdómadeild verður flutt á Landsspítala. Starfsmönnum var tilkynnt þetta á fundi fyrr í dag.

Sveinn Einarsson, svæfingarlæknir á St. Jósefsspítala segir flutninginn út í bláinn. Gjörningurinn sé eins og allt sem á undan er gengið. Hagsmunapólitík sem taki ekkert mið af þjónustu við sjúklinga. Hann segir 8000 aðgerðar gerða á spítalanum árlega, kvensjúkdómaaðgerðir, lýtalækningar, almennar skurðaðgerðir og bæklunaraðgerðir.

Hann segir starfsfólk spítalans vera meðal þeirra fremstu í sinni röð. Til að mynda sé kvensjúkdómalæknir á heimsmælikvarða á spítalanum, sem geri fjölda grindarbotnsaðgerða á hverju ári. Sveinn segir litlar líkur á því að starfsfólkið kæri sig um að vinna á skurðstofunum í Keflavík, og átelur þau vinnubrögð að hugmyndin hafi ekki verið kynnt betur fyrir því. „Þú flytur fólk ekkert í bara rútu. Það þarf að kynna málið og selja þeim sem eiga að vinna á staðnum hugmyndina," segir Sveinn.

Nú klukkan tvö hófst blaðamannafundur heilbrigðisráðherra á Hilton hóteli. Þangað ætlar starfsfólk spítalans að fara og mótmæla flutningunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×