Lífið

Fæstir vita margt um Ísland

Áhugaverð rannsókn Jón Eðvald og Steindór Grétar komust að því að útlendingar vita fátt um Ísland.fréttablaðið/pjetur
Áhugaverð rannsókn Jón Eðvald og Steindór Grétar komust að því að útlendingar vita fátt um Ísland.fréttablaðið/pjetur

„Þetta var nú ekki vísindaleg rannsókn gerð á félagsfræðilegum forsendum. Okkur langaði bara að fá skýrari mynd af ímynd Íslands eftir bankahrunið og IceSave illdeilanna og setja hana fram á skemmtilegan hátt,“ segir Steindór Grétar Jónsson um verkefnið NiceBjörkCrisis sem sýnt verður í húsnæði Hugmyndasmiðju unga fólksins í kvöld.

Steindór Grétar og Jón Eðvald Vignis­son fengu styrk hjá Evrópu unga fólksins til að framkvæma rannsóknina og fóru til sex Evrópulanda og lögðu spurningar fyrir fólk. „Borgirnar sem við heimsóttum voru London, Kaupmannahöfn, Amsterdam, Varsjá, Berlín og Barcelona og voru þær allar valdar vegna sérstakra tengsla við Ísland. Það kom okkur á óvart að svörin voru mjög svipuð alls staðar, fólk vissi af Björk og Sigur Rós og var líka meðvitað um bankakreppuna og náttúrulega sérstöðu landsins. Fæstir vissu þó af hvalveiðum og aðeins Hollendingar voru meðvitaðir um Icesave-deiluna.“

Steindór segir að fólk hafi almennt verið jákvætt í garð Íslands og Íslendinga og að margir hafi lýst yfir áhuga sínum á að sækja landið heim. „Niðurstaðan varð þó sú að fólk vissi almennt mjög lítið um Ísland sem þýðir að allir þeir Íslendingar sem fara út fyrir landsteinana geta haft áhrif á ímynd landsins.“

Sérstök sýning verður sett upp í tengslum við verkefnið þar sem verður meðal annars hægt að skoða brot úr viðtölunum og orðtíðnigreiningu sem búið er að setja upp á myndrænan hátt. Sýningin opnar klukkan 20.00 í kvöld í gamla Saltfélaginu og klukkan 12.00 laugardag og sunnudag. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.