Innlent

Hálfur milljarður í Hallgrímskirkjuturn

Steypuskemmdir í turni Hallgrímskirkju eru sagðar vera miklu meiri en upphaflega var talið.Fréttablaðið/Arnþór
Steypuskemmdir í turni Hallgrímskirkju eru sagðar vera miklu meiri en upphaflega var talið.Fréttablaðið/Arnþór

Viðgerðir á turni Hallgrímskirkju stefna nú í að kosta nær tvöfalt meira en upphaflega var talið. Reykjavíkurborg og ríkið eru beðin að auka framlag sitt til endurbótanna.

„Ef ekki kemur til viðbótarfjármagn mun verkið stöðvast fljótlega og afleiðingarnar verða þær að viðgerðir sem þegar hafa verið framkvæmdar munu liggja undir skemmdum,“ segir í greinargerð sem fylgir tillögu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra um að borgin veiti meira fé til Hallgrímskirkju.

Reykjavíkurborg ákvað á árinu 2007 að greiða 12,4 milljónir á ári fram til ársins 2013 til viðgerðanna á turni Hallgrímskirkju. Ríkið leggur fyrir sitt leyti fram jafn háa upphæð. Nú leggur borgarstjóri til að framlengja þessar greiðslur allt til ársins 2019 að því tilskildu að ríkið geri slíkt hið sama. Þannig munu greiðslur frá ríki og borg á endanum nema 322 milljónum.

Í greinargerð með tillögu borgarstjóra kemur fram að upphafleg kostnaðaráætlun fyrir verkið hafi hljóðað upp á 228 milljónir króna. „Þegar viðgerðir hófust kom hins vegar í ljós að steypuskemmdirnar voru miklu meiri en upphaflega var talið,“ segir í greinargerðinni, þar sem fram kemur að nú sé áætlað að viðgerðarkostnaðurinn verði 540 milljónir króna.

Í greinargerð borgarstjóra er sérstaklega vikið að því hvort jafnræðisregla kunni að vera brotin með því að greiða umræddar fjárhæðir úr borgarsjóði í þetta verkefni fyrir einn tiltekin trúarsöfnuð, það er þjóðkirkjuna. „Um er að ræða höfuðkirkju landsins og eitt helsta kennileiti Reykjavíkur-borgar sem jafnframt er hluti af byggingarsögu Íslands,“ segir í rökstuðningi fyrir því að jafnræðisregla stjórnsýslulaga komi ekki í veg fyrir þessa fjárveitigu. „Enda fara ólögbundin verkefni sveitarstjórna eftir efnum og ástæðum hverju sinni,“ segir þar enn fremur.

Í bréfi Jóhannesar Pálmasonar, formanns sóknarnefndar Hallgrímskirkju, og fleiri til kirkjumálaráðherra, borgarstjórans og biskups Íslands kemur fram að ákveðið hafi verið að halda verkinu áfram þrátt fyrir óvissu með fjármögnun. Frestun framkvæmdanna væri kostnaðarsöm auk þess sem ný og gömul steypa í kirkjuturninum yrði þá berskjölduð. „Raunverulegur kostnaður ríkisins við áframhald framkvæmda er litlu meiri en annars sennilegur kostnaður ef verkið stöðvast,“ segir meðal annars í bréfinu.

Afgreiðslu tillögu borgarstjórans var frestað á fundi borgarráðs á fimmtudag. gar@frettabladid.is

Hanna Birna Kristjánsdóttir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×