Innlent

Fundarhlé hjá Framsókn - málin rædd af hreinskilni

Valur Grettisson skrifar
Það er gott að búa í Kópavogi.
Það er gott að búa í Kópavogi.

„Málin hafa verið rædd af hreinskilni," segir Gestur Valgarðsson, formaður Framsóknarfélagsins í Kópavogi, en hann er staddur á miklum krísufundi þar sem pólitísk framtíð Kópavogsbæjar mun ráðast í kvöld.

Fundurinn hófst klukkan átta í kvöld hjá Framsóknarmönnum í Kópavogi. Mikil ólga er innan Framsóknarflokksins í Kópavogi eftir að svört skýrsla Deloitte var birt á dögunum og sýnt fram á óeðlileg viðskipti á milli Kópavogsbæjar og fyrirtækis í eigu dóttur Gunnars Birgissonar.

Þá tók steininn úr þegar málefni lífeyrissjóðs Kópavogsbæjar voru vísað til Fjármálaeftirlitins. Í kjölfarið sakaði Flosi Eiríksson, bæjarfulltrúi Samfylkingar og stjórnarmaður sjóðsins, Gunnar Birgisson, um að hafa blekkt stjórnarmenn.

Gestur vildi ekki upplýsa nákvæmlega hvað hefði verið rætt á fundinum. Hann staðfesti þó við blaðamann að engar tillögur væru komnar fram. Niðurstöðu væri hinsvegar að vænta síðar í kvöld - hvort samstarfið haldi áfram eður ei.

Samkvæmt heimildum Vísis leggja Framsóknarmenn hart að Ómari Stefánssyni, bæjarfulltrúa Framsóknar í Kópavogsbæ, að slíta samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. Þeir óttast að geri þeir það ekki þá verði þeim refsað grimmilega í næstu sveitastjórnakosningum sem verða á næsta ári.

Sjálfstæðismenn funda einnig í kvöld. Þar er deilt um annað, það er að segja hvaða bæjarfulltrúi eigi að taka við bæjarstjórastólnum af Gunnari.

Bæjarfulltrúi Vinstri grænna, læknirinn Ólafur Þór Gunnarsson, sagði í viðtali við Vísi fyrr í kvöld að veikindi meirihlutans væru slík að þau væru orðin skaðleg bæjarbúum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×