Innlent

Ólafur Þór Gunnarsson: Pólitísk veikindi farin að skaða Kópavog

Valur Grettisson skrifar
Ólafur Þór Gunnarsson.
Ólafur Þór Gunnarsson.

„Ég tel stöðuna slíka að meirihlutinn sé afskaplega veikur og þessi veikindi meirihlutans eru farinn að skaða bæjarfélagið," segir Ólafur Þór Gunnarsson, læknir og bæjarfulltrúi Vinstri grænna í Kópavogi.

Meirihlutasamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknar er sagt hanga á bláþræði. Inn í það spilast tvö umdeild mál tengd fráfarandi bæjarstjóranum Gunnari Birgissyni.

Málin tvö sem um ræðir eru meint óeðlileg viðskipti bæjarins við fyrirtækið Frjálsa Miðlun en dóttir Gunnars er aðaleigandi þess ásamt eiginmanni sínum.

Hitt málið varðar lífeyrissjóð starfsmanna Kópavogsbæjar. Mál honum tengdum hefur verið vísað til Fjármálaeftirlitsins. Þá hefur bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og stjórnarmaður sjóðsins, Flosi Eiríksson, sakað Gunnar um blekkingar.

Samkvæmt heimildum Vísis er hart deilt innan Sjálfstæðisflokksins hver eigi að taka við bæjarstjóraembættinu.

Þær deilur hafa sett sitt mark á samstarf Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.

Fundað verður um áframhaldandi samstarf klukkan átta í kvöld. Síðar mun koma í ljós hvort meirihlutinn haldi.

„Í rauninni tel ég að þessu samstarfi sé sjálfhætt. Annars þurfa þeir náttúrulega að taka þessa ákvörðun sjálfir," segir Ólafur Þór að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×