Erlent

Rússar njósna um þýsk orkufyrirtæki

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Wolfang Schäuble.
Wolfang Schäuble.

Rússneskir njósnarar beina nú augum sínum að þýskum orkufyrirtækjum í leit að aðferðum til að auka afkastagetu sinna eigin fyrirtækja.

Burkhard Even, yfirmaður gagnnjósnadeildar þýsku leyniþjónustunnar, lét þýska blaðinu Die Welt þessar upplýsingar í té í viðtali sem blaðið birti í gær. Hann sagði rússneska njósnara liggja yfir orkufyrirtækjum landsins auk þess að fylgjast grannt með þýska hagkerfinu, þróun þess og stjórnun.

Þýski innanríkisráðherrann Wolfang Schäuble lét þess einnig getið í skýrslu ráðuneytisins í maí að Rússar og Kínverjar stunduðu njósnir í þýskum fyrirtækjum auk þess sem gerðar hefðu verið árásir á fyrirtækin gegnum Netið. Even mæltist til þess í viðtali Die Welt að fyrirtæki hertu öryggisreglur sínar og væru á varðbergi gagnvart iðnaðarnjósnum jafnt sem tölvuárásum. Hann segir það augljóst að ætlun Rússanna sé að afla sér upplýsinga frá þýskum fyrirtækjum sem nýtist þeim við að styrkja sín eigin fyrirtæki og auka afkastagetu þeirra, einkum í orkugeiranum.

Mikhail Fradkov, sem stjórnar alþjóðadeild rússnesku leyniþjónustunnar, er hagfræðingur og sagður sérstaklega skæður en hann var skipaður í embætti af Vladimir Pútín sem þá var forseti Rússlands. Pútín njósnaði fyrir KGB á dögum kalda stríðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×