Innlent

Vinnubrögð sögð ámælisverð

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Guðmundur Gunnarsson oddviti sjálfstæðismanna á Álftanesi varar við hugsanlegum kærumálum á hendur sveitarfélaginu vegna meðferðar á tilmælum Skipulagsstofnunar.
Guðmundur Gunnarsson oddviti sjálfstæðismanna á Álftanesi varar við hugsanlegum kærumálum á hendur sveitarfélaginu vegna meðferðar á tilmælum Skipulagsstofnunar. Fréttablaðið/E. Ól
„Það er mál að linni í þessu ótrúlega máli, sem eingöngu er unnið út frá afar kjánalegum tilraunum forseta bæjarstjórnar til þess að afmá lóðina Miðskógar 8, sem er lóðin sunnan hans húss,“ segir Guðmundur Gunnarsson, oddviti minnihluta Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Álftaness.

Á fundi bæjarstjórnar á fimmtudag var lagt fram bréf frá Skipulagsstofnun um að auglýsa beri aftur formlega nýtt deiliskipulag á Vestur-Skógtjarnarsvæði vegna þess að svo miklar breytingar hafi verið gerðar á skipulaginu frá auglýstri tillögu. Jafnframt var lagt fram minnisblað frá skipulagsstjóra Álftaness sem kvaðst hafa gengið á fund fulltrúa Skipulagsstofnunar og fengið þá til að fallast á að ekki þyrfti að auglýsa skipulagið að nýju ef bæjaryfirvöld uppfylltu ákveðin skilyrði.

„Ég tel það algerlega fráleitt og mjög ámælisvert að við móttöku bréfsins ákveði fulltrúar Á-lista að óska eftir fundi með fulltrúum Skipulagsstofnunar og fara fram á að meginniðurstöðu stofnunarinnar sé breytt,“ segir Guðmundur og bætir við að sér finnist algerlega ómögulegt að forseti bæjarstjórnar Álftaness, Kristján Sveinbjörnsson, bjóði upp á að hagsmunaaðilar á svæðinu leiti réttar síns á grundvelli bréfs Skipulagsstofnunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×