Innlent

Rekstur erfiður vegna flutningskostnaðar

Verksmiðjustjóri Vífilfells á Akureyri óttast að flutningskostnaður geti að óbreyttu orðið til þess að verksmiðjum úti á landi verði lokað og framleiðsla færist á höfuðborgarsvæðið í stórum stíl.

Mikið hefur verið rætt um flutningskostnað undanfarið en ekki hafa verið boðaðar neinar óyggjandi breytingar til að jafna kjör landsbyggðarinnar. Flutningskostnaður hleypur í sumum tilvikum á tugum og hundruðum milljóna hjá íslenskum fyrirtækjum.

,,Það er alveg ljóst að við erum að borga 70 til 80 milljónir í aukaflutningskostnað fyrir að starfa hér fyrir norðan," segir Unnsteinn Jónsson, verksmiðjustjóri Vífilsfells á Akureyri.

Unnsteinn segir að hingað til hafi borgað sig að vera með starfsemi á Akureyri en nú sé ýmis kostnaður sem geri reksturinn erfiðari. Þar á meðal flutningskostnaðurinn.

Norðmenn niðurgreiða flutningskostnað og Unnsteinn segir að slíkar aðgerðir hér gætu komið í veg fyrir þær afleiðingar kreppunnar, að verksmiðjuframleiðsla leggist í stórum stíl af úti á landi og flytjist til höfuðborgarsvæðisins.

Unnsteinn telur aðkallandi að gripið verði til aðgerða eigi starfsemi eins og Vífilfell heldur úti á Akureyri að haldast áfram úti á landi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×