Innlent

Borgarfulltrúar upplýsi um bakhjarla sína

Frá fundi borgarstjórnar í ágúst sl.
Frá fundi borgarstjórnar í ágúst sl.

Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi, lagði til á fundi borgarstjórnar í dag að borgarfulltrúar birti upplýsingar um öll fjárframlög til þeirra vegna prófkjara fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar eigi síðar en 28. febrúar næst komandi.

Í greinargerð með tillögunni segir Ólafur óviðunandi, ekki síst á tímum mikillar umræðu um spillingu og hagsmunatengsl í íslenskun stjórnmálum, að það sé látið viðgangast að borgarfulltrúar upplýsi ekki þá verktaka, auðmenn eða aðra aðila sem veittu þeim fjárframlög vegna prófkjara.

Borgarfulltrúar hugsanlega vanhæfir

,,Þar sem mörg þekkt dæmi eru um að aðilar úr Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki hafi setið beggja vegna borðsins við einkavæðingu ríkisbankanna, og gerst auðmenn í kjölfarið, hlýtur það að vekja upp spurningar um tengsl þeirra við borgarfulltrúa þessara flokka í áðurnefndum prófkjörum. Ef ýmsir aðrir aðilar, sem hafa komið að mjög svo vafasamri einkavæðingu liðinna ára, tengjast borgarfulltrúum fjárhagslegum böndum, þá eru hinir sömu borgarfulltrúar orðnir vanhæfir til að gegna starfi sínu, því þeir geta þá ekki þjónað þeim hagsmunum almennings ásamt sannfæringu sinni, sem þeim er ætlað að gera," segir í greinargerðinni.

Siðareglur borgarfulltrúa nýverið lagðar fram

Tillögur að siðareglum fyrir borgarfulltrúa voru lagðar fram á fundi borgarráðs síðastliðin fimmtudag. Samkvæmt þeim er ekki minnst sérstaklega á fjárframlögum í tengslum við prófkjör. Aftur á móti er kveðið á um að kjörnir fulltrúar eigi að forðast hagsmunaárekstra og gæta þess að fara ekki út fyrir umboð sitt í störfum sínum og virða verkaskiptingu í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar.

Borgarstjórnarflokkar hafa siðareglurnar nú til umsagnar.

Tillögunni vísað frá með atkvæðum meirihlutans

Tillögu Ólafs var vísað frá með átta atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Samfylkingin sat hjá við afgreiðslu málsins en borgarfulltrúar Vinstri grænna greiddu atkvæði með tillögunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×