Erlent

Móðir fyrir rétt vegna morðs á fimm börnum sínum

Óli Tynes skrifar

Réttarhöldin munu snúast um það hvað það var sem fékk hina 42 ára gömlu Geneviev Lhermitte til þess að myrða börnin sín, fjórar telpur og einn dreng.

Þau voru á aldrinum þriggja til fjórtán ára. Lhermitte er kennslukona en hafði verið í veikindaleyfi árum saman.

Staðreyndir málsins liggja fyrir, byggðar á hennar eigin frásögn. Í febrúar á síðasta ári beið fjölskyldan eftir því að heimilisfaðirinn Bouchaien Moqadem kæmi heim úr ferð frá Marokkó.

Nokkrum klukkustundum áður en von var á honum sagði Lhermitte sjö ára dóttur sinni að koma með sér upp á efri hæðina, hún ætlaði að sýna henni dálítið.

Þegar upp var komið kyrkti Lhermitte telpuna og skar hana svo á háls með stórum eldhúshníf. Hún kallaði svo á börnin eitt af öðru og myrti þau á sama hátt.

Að því loknu kom hún þeim fyrir í rúmum sínum og lagði hjá þeim bangsa og önnur uppstoppuð leikföng.

Hún stakk svo sjálfa sig í brjóstið og hringdi í lögregluna. Í bréfi sem hún skildi eftir í póstkassa vinafólks sagði hún að hún ætlaði að hverfa að eilífu með börnum sínum. Hún sakaði eiginmann sinn um tillitsleysi.

Sálfræðingar sem rannsökuðu hana töldu að hún hafi upplifað atburðinn sem hópsjálfsmorð með börnum sínum.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×