Erlent

Morðið á Politkovskayu tekið fyrir dóm

Morðið á rússnesku blaðakonunni Önnu Politkovskayu var tekið fyrir dóm í Moskvu í gær. Grunur leikur á að eitrað hafi verið fyrir lögfræðing fjölskyldunnar.

Fjórir menn eru sakaðir um aðild að morðinu á rannsóknarblaðakonunni Önnu Piolitkovskayu sem var skotin til bana fyrir utan heimili sitt í október árið 2007. Einn þeirra er fyrrverandi yfirmaður í lögreglunni.

Aðeins þrír menn eru þó fyrir dómi. Sá fjórði sem er sakaður um að hafa skotið hana er enn á flótta undan réttvísinni. Ákæruvaldið segist ekki hafa neinar upplýsingar um það ennþá hver það var sem fyrirskipaði morðið.

Politkovskaya hafði meðal annars rannsakað framferði rússneskra hermanna í Tsjetsníu og starfsbræður hennar grunar að það hafi verið ein ástæðan fyrir því að hún var ráðin af dögum.

Lögfræðingur fjölskyldu Politkovskayu, Karina Moskalenko, tilkynnti í gær að hún gæti ekki verið við fyrirtöku málsins. Hún og börn hennar væru veik eftir að kvikasilfur fannst í bíl hennar í Frakklandi. Moskalenko sagði í samtali við rússneska útvarpsstöð að fólki setti ekki kvikasilfur í bíla til þess að bæta heilsu eigandans.

Ef fólk verður fyrir kvikasilfurseitrun á háu stigi getur það skaðað heila, hjarta, nýru, lungu og ónæmis- og taugakerfi. Það getur jafnvel dregið fólk til dauða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×