Innlent

Íslenski sprengjulistamaðurinn laus allra mála í Kanada

Þórarinn Ingi með „sprengjuna“.
Þórarinn Ingi með „sprengjuna“.

Kanadískur dómstóll felldi í dag dóm í máli listnemans Þórarins Inga Jónssonar en mál hans komst í hámæli í nóvember á síðasta ári þegar hann kom fyrir eftirlíkingu af sprengju á listasafni í Toronto. Athæfið olli því að rýma þurfti safnið og fjáröflunarsamkomu sem halda átti á staðnum var aflýst.

Clayton Ruby, lögmaður Þórarins, sagði í samtali við Vísi að hann væri mjög ánægður með dóminn en samkvæmt honum mun Þórarinn ekki fara á sakaskrá. Hann var ákærður fyrir „hrekk" að sögn Ruby en ákæruvaldið krafðist þess að málið yrði skilgreint sem glæpur. Dómarinn hafnaði því en setti hann á níu mánaða skilorð þar sem honum er fyrirskipað að „halda friðinn og haga sér vel".

Að sögn Ruby leit málið mun verr út í upphafi og á fyrstu stigum leit út fyrir að ákæruvaldið myndi krefjast fangelsisdóms yfir Þórarni. Þeir hafi hins vegar áttað sig á því að hann hafi ekki haft neitt illt í hyggju og því mildað ákæruna.

Dómurinn setur Þórarni heldur engar skorður við að ferðast til Kananda en á sínum tíma var honum vikið úr skólanum sem hann stundaði nám við vegna athæfisins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×