Innlent

Undibúa koltrefjaverksmiðju á Króknum

Kaupfélag Skagfirðinga, Gasfélagið og Sveitarfélagið Skagafjörður hafa gert með sér samkomulag um að stofna undirbúningsfélags sem hyggst reisa koltrefjaverksmiðju á Sauðarkróki. Það voru Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri KS, Bjarni Ármannsson, stjórnarformaður Gasfélagsins, og Guðmundur Guðlaugsson, sveitarstjóri Skagafjarðar, sem undirrituðu samkomulagið á Sauðárkróki í dag að viðstöddum Össuri Skarphéðinssyni Iðnaðarráðherra og Þorsteini Inga Sigfússyni, forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

„Koltrefjar eru notaðar sem styrkingarefni við framleiðslu á margs konar framleiðsluvörum. Koltrefjar leysa því af hólmi ýmis þekkt smíðaefni í iðnaði svo sem ál, timbur og stál, sérstaklega í iðngreinum þar sem léttleiki og styrkur eru leiðarljósið. Sem dæmi þá nýtir flugvélaiðnaðurinn þetta efni í vaxandi mæli og er ný kynslóð af farþegaþotum svo sem Boeing 787 Dreamliner og Airbus 350 smíðuð að verulegu leyti með koltrefjum sem styrkingarefni. Koltrefjar stuðla vegna léttleika að minni orkunotkun, auk þess sem umhverfisáhrif við framleiðslu eru takmörkuð," segir í tilkynningu frá samningsaðilum.

Fram kemur í tilkynningunni að heildarhlutafé undirbúningsfélagsins sé 25 milljónir króna og munu KS og Gasfélagið leggja til 10 milljónir hvort félag og sveitarfélagið 5 milljónir til verkefnisins. Áætlað er að koltrefjaverksmiðjan afkasti 1.500 til 2.000 tonnum af kolefnistrefjum á ári. Áætluð raforkunotkun slíkrar verksmiðju er 10 megavött og felst undirbúningur að stofnunni meðal annars í að leita samninga um hagstæð orkukaup.

Í tilkynningunni kemur einnig fram að sveitarfélagið Skagafjörður hafi haft forgöngu um stofnun félags um uppbyggingu koltrefjaverksmiðjunnarog unnið að undirbúningi hennar í samvinnu við Fjárfestingarstofu, Hátæknisetur Íslands, Skagafjarðarhraðlestina og Atvinnuþróun SSNV. Niðurstaða þeirrar vinnu er að sú þekking sem orðin er til hjá aveitarfélaginu og Hátæknisetri Íslands á framleiðslu koltrefja ásamt aðgangi að endurnýtanlegri orku gerir Skagafjörð að afar góðum kosti til uppbyggingar koltrefjaverksmiðju.

Skapar allt að 120 störf á svæðinu

Stefnt er að því að undirbúningsfélagið ljúki störfum á næstu tólf mánuðum og að þá verði tekin afstaða til þess hvort verksmiðja verði reist. Komist aðilar að þeirri niðurstöðu að ráðast skuli í byggingu koltrefjaverksmiðju verður stofnað um hana sérstakt félag og gert um það nýtt samkomulag, á grundvelli þess samkomulags sem undirritað var í dag. Áætluð heildarfjárfesting koltrefjaverksmiðju yrði á bilinu fjórir til fimm milljarðar króna.

„Undanfarin ár hefur fjárfesting í orkufrekum iðnaði einkum beinst að álframleiðslu sem krefst mikillar fjárfestingar bæði fyrir framleiðsluna og öflun orkunnar. Koltrefjaframleiðsla hefur þá kosti að hún krefst ekki jafn gríðarlegrar fjárfestingar og hentar því vel til atvinnuuppbyggingar smærri byggðarlaga. Áæltað er að um 60 störf þurfi til rekstrar þeirrar einingar sem horft hefur verið til. Heildar áhrif á vinnumarkað svæðisins eru metin með afleiddum störfum til 110 til 120 starfa sem eru um 5% aukning," segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×