Innlent

Segist ekki hafa svikið Kristin

Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, segist ekki hafa gengið á bak orða sinna þegar hann lagði það til á þingflokksfundi á mánudaginn að Jón Magnússon yrði þingflokksformaður í stað Kristins H. Gunnarssonar. Ég hef ekki svikið einn né neinn segir Guðjón.

Fyrir fundinn á mánudaginn hafði miðstjórn Frjálslynda flokksins skorað á Guðjón að gera Jón Magnússon að þingflokksformanni í stað Kristins H. Gunnarssonar.

Í samtali við Bæjarins besta fyrr í þessum mánuði útilokaði Guðjón ekki breytingar en taldi greinilegt að einhverjir í miðstjórn flokksins væru að leggja Kristin í einelti. Á fundinum var Jón hins vegar kjörinn þingflokksformaður að tillögu Guðjóns.

Aðspurður hvort hann sé ekki að taka undir það einelti sem hann hafi áður sagt að Kristinn hafi sætt segir Guðjón Arnar: „Nei, við ákváðum bara að skipta um formennsku þingflokksins og Kristinn var formaður og verður varaformaður. Jón Magnússon var varaformaður og verður formaður."

Kristinn er ósáttur við þessa niðurstöðu og í samtali við fréttastofu í gær sagði hann að með þessu hefði formaðurinn keypt sér frið fyrir herferð Jóns og félaga úr Nýju afli. Formaðurinn hefði jafnframt gengið á bak orða sinna með þessum gjörningi. Guðjón neitar því að hafa svikið nokkurn mann. „Ég bara met ástandið eins og það er í flokknum og fer yfir það hvað er okkur fyrir bestu og tek ákvarðanir í samræmi við það," segir Guðjón.

Þá segir Guðjón aðspurður að ekki sé verið að bola Kristni úr embætti. „Þetta er lýðræðislegur flokkur. Þá er bara um það að ræða að það er kosning og bara meirihlutinn sem ræður," segir formaðurinn enn fremur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×