Innlent

Þyrla Landhelgisgæslunnar tekur þátt í leit að ræningja

Björn Gíslason skrifar

Ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar, TF-EIR, tekur nú þátt í leitinni að karlmanni á þrítugsaldri sem rændi útibú Landsbankans við Bæjarhraun í Hafnarfirði í morgun. Að sögn lögreglunnar er mannsins meðal annars leitað í hrauninu við Kaplakrika, milli Garðabæjar og Hafnarfjarðar.

Maðurinn ruddist inn í útibúið á á tíunda tímanum í morgun, skömmu eftir að útibúið var opnað, og ógnaði þar starfsfólki með hnífi. Maðurinn var í hettupeysu og huldi andlit sitt með klúti. Hann hafði á brott með sér fjármuni en að sögn framkvæmdastjóra starfsmannasviðs Landsbankans munu það ekki hafa verið miklir peningar. Maðurinn komst undan á hlaupum og leitar allt tiltækt lið lögreglu hans nú, bæði lögreglubílar og lögregluhjól.

Um tíu starfsmenn voru í útibúinu þegar ránið átti sér stað en engan þeirra sakaði. Þeim hefur verið boðin áfallahjálp í samræmi við verklagsreglur bankans.


Tengdar fréttir

Rændi banka við hliðina á sýslumanni

Upptökur úr eftirlitsmyndavél á húsi sýslumannsins í Hafnarfirði er meðal þess sem skoða á í tengslum við rán í útibúi Landsbankans við Bæjarhraun 16 í morgun. Sýslumaður er í næsta húsi við bankann.

Rændi banka vopnaður hnífi

Vopnað rán var framið í útibúi Landsbankans í Bæjarhrauni laust eftir að útibúið var opnað í morgun.

Ránið hálftilgangslaust því peningar eru ekki aðgengilegir

„Það slasaðist enginn og við erum ánægð með það því það er mikilvægast í svona málum," segir Atli Atlason, framkvæmdastjóri starfsmannasviðs Landsbankans, um vopnað rán sem framið var í útibúi bankans í Bæjarhrauni í Hafnarfirði í morgun. Þar ruddist ungur maður inn og ógnaði starfsfólki með hnífi og hafði einhverja fjármuni á brott með sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×