Rotþró var á dögunum stolið þar sem hún stóð við sumarbústað í Ásgarðslandi í Grímsnesi. Lögreglunni á Selfossi bárust upplýsingar um að líklega væri hana að finna niðurgrafna við sumarbústað ekki langt þar frá.
Lögregla fór á staðinn, lét grafa upp rotþró og lagði hald á hana. Í framhaldi af því var maður handtekinn sem grunaður var um þjófnaðinn. Sá staðhæfði að hafa keypt rotþróna og framvísaði kvittun því til staðfestingar. Við nánari skoðun kom í ljós að kvittunin var fölsuð.
Maðurinn viðurkenndi við yfirheyrslu að hafa falsað kvittunina en hélt sig fast við að hafa keypt rotþróna. Rannsókn málsins er á lokastigi að sögn lögreglu og verður sent til saksóknara.