Innlent

Beiðni dagskrárstjóra RÚV um endurupptöku vísað frá

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Æðstu stjórnendur RÚV hafa ekki hlýtt upplýsingalögum.
Æðstu stjórnendur RÚV hafa ekki hlýtt upplýsingalögum. Mynd/ Heiða.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur vísað frá beiðni þeirra Sigrúnar Stefánsdóttur og Þórhalls Gunnarssonar um að nefndin taki á ný fyrir synjun Ríkisútvarpsins um birtingu ráðningasamninga þeirra.

Í september síðastliðnum fór Óskar Hrafn Þorvaldsson, ritstjóri Vísis, þess á leit að Vísi yrðu veittar upplýsingar um laun þeirra Þórhalls Gunnarssonar og Sigrúnar Stefánsdóttur, dagskrárstjóra hjá Ríkisútvarpinu. RÚV neitaði að láta upplýsingarnar af hendi. Ritstjóri Vísis kærði þá synjun til úrskurðarnefndar um upplýsingarmál. Hinn 11. mars síðastliðinn úrskurðaði nefndin að Ríkisútvarpinu væri skylt að láta þessar upplýsingar af hendi. Með úrskurði sem kveðinn var upp hinn 18. mars síðastliðinn synjaði úrskurðarnefndin svo kröfu Ríkisútvarpsins um að birtingu ráðningasamninganna yrði frestað.

Hróbjartur Jónatansson, lögmaður Sigrúnar og Þórhalls, bað um endurupptöku á málinu á þeirri forsendu að umræddir ráðningarsamningar vörðuðu persónuleg réttindi umbjóðenda hans, sem njóti verndar samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og stjórnarskrárbundnu ákvæði um friðhelgi einkalífs. Taldi Hróbjartur að úrskurðarnefndin hefði átt að taka tillit til þess að Sigrún og Þórhallur væru aðilar að málinu. Þetta hafi nefndin ekki gert og þar með ekki gætt „grundvallarreglna stjórnsýsluréttar um upplýsinga- og andmælarétt, svo og um leiðbeiningarskyldu og rannsókn máls". Úrskurður nefndarinnar hafi því verið haldinn verulegum annmörkum og fullnægi ekki almennum stjórnsýslureglum. Því hafi skilyrði til endurupptöku máls verið fyrir hendi, sbr. 24. grein stjórnsýslulaga.

Úrskurðarnefnd hafnaði hins vegar rökum Hróbjarts og telur að þau Þórhallur og Sigrún hafi ekki átt aðild að máli úrskurðarnefndar um upplýsingarmál. Þau geti því heldur ekki átt aðild að endurupptökumáli. Því var endurupptökubeiðni vísað frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×