Erlent

Síðasti hryðjuverkamaðurinn í Oberoi-hótelinu felldur

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Umsátri lögreglu um Oberoi-hótelið í Mumbai er lokið, 40 klukkustundum eftir að það hófst. Lögregla lagði til atlögu við tvo eftirlifandi hryðjuverkamenn í hótelinu og felldi þá.

Öllum gíslum hefur þá verið bjargað þaðan en lögregla situr enn þá um Taj Mahal-hótelið þar sem einn hryðjuverkamaður hefur nokkra hótelgesti í haldi. Þrjátíu lík hafa fundist í Oberoi en lögreglumenn ganga nú milli herbergja hótelsins og leita lifenda. Einnig eru nokkrir gyðingar taldir vera í haldi hryðjuverkamanna í Chabad-bænahúsinu í Mumbai.

Lögregla sagði fréttamönnum að ódæðismennirnir væru engir viðvaningar, heldur þrautþjálfaðir vígamenn. Auk þess að skjóta óvopnað fólk til bana án þess að blikna hefðu mennirnir gjörþekkt teikningar af hótelunum og margir þeirra horfið þaðan sporlaust.

Þá sagði sérsveitarmaður að hryðjuverkamennirnir hefðu handleikið AK-47-riffla og kastað handsprengjum eins og þjálfaðir hermenn. „Það leynir sér ekki að þeir hafa hlotið þjálfun einhvers staðar," sagði hann.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×