Innlent

Leigubílstjóra ógnað með hnífi - fann árásarmennina sjálfur

Breki Logason skrifar

Leigubílstjórinn, Þorsteinn Héðinsson, sem varð fyrir fólskulegri árás í Garðabæ aðfaranótt föstudags fann árásarmennina sjálfur. Daginn eftir stóð hann fyrir fyrir utan lögreglustöðina á Hverfisgötu og reykti sígarettu. Skyndilega byrjuðu fjórir piltar að æpa ókvæðisorð að Þorsteini sem áttaði sig á að þarna voru árásarmennirnir. Lögreglan handtók þá stuttu síðar og voru þeir vopnaðir hnífum.

Þorsteinn tók tvo pilta upp í bílinn hjá sér við Hlemm aðfaranótt föstudagsins í síðustu viku. Þeir báðu hann um að keyra sig í Garðabæ og töluðu ensku allan tímann. „Þeir þóttust vera pólverjar en ég áttaði mig strax á að þetta væru íslendingar, en spilaði bara með. Ég hafði óljósan grun um í hvað stefndi þegar þeir spurðu mig um símann og hvort ég væri með talstöð," segir Þorsteinn en piltarnir fóru út við verslun 11-11 við Gilsbúð í Garðabæ.

„Þegar ég er að stoppa kom fyrsta höggið á fleygiferð og sprengdi efri vörina. Ég gaf þá allt í botn og í kjölfarið fylgdu fimm til sex högg í viðbót," segir Þorsteinn en sá sem lét höggin dynja sat í framsætinu.

Hinn pilturinn sem var aftan í hélt á hnífi og hótaði Þorsteini. „Hann sagðist hafa drepið marga og heimtaði peninga. Ég lét þá fá þúsund kall sem ég var með en sagði hitt allt vera í kortum."

Því næst tóku piltarnir Nokia 5110 síma Þorsteins og hlupu í burtu, en Þorsteinn kallaði til lögreglu sem hóf þegar leit að piltunum, án árangurs.

Daginn eftir fór Þorsteinn síðan upp á lögreglustöð með öðrum leigubílstjóra sem hafði orðið vitni að því þegar piltarnir fóru upp í bílinn.

„Ég fór með honum niðureftir en þegar ég kom inn sagðist lögreglan ekkert hafa við mig frekar að tala, ég fór því bara út að reykja."

Skyndilega heyrir Þorsteinn einhverja pilta kalla ókvæðisorð að sér en þeir standa fjórir saman hinum megin við götuna, hjá Hlemmi.

„Þá sé ég einn þarna með ljósan koll og áttaði mig strax á því að þetta var sá sami og kom upp í bílinn hjá mér," segir Þorsteinn sem beið rólegur þar til piltarnir fóru í hvarf. Því næst hringdi hann í lögregluna sem fór af stað.

„Við sóttum þá síðan niður í Kvosina þar sem Hljómbær var í gamla daga. Þeir voru þrír teknir, þessi og tveir aðrir," segir Þorsteinn en piltarnir sem allir eru 16 ára gamlir voru vopnaðir hnífum.

Þorsteinn gaf skýrslu og var beðinn um að teikna hnífsblaðið sem hann og gerði. Daginn eftir hafði lögreglan samband við Þorstein og sagði hann hafa lýst og teiknað 100% hnífsblaðið sem drengurinn var með.

„Hann var reyndar eitthvað malda í móinn og sagðist ekki hafa beitt hnífnum."

Þrátt fyrir allt lét Þorsteinn uppákomuna ekkert á sig fá og var að keyra í miðbænum um helgina.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×