Innlent

Þetta er til háborinnar skammar

Sigrún Elsa Smáradóttir borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.
Sigrún Elsa Smáradóttir borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.

Sigrún Elsa Smáradóttir fulltrúi Samfylkingarinnar segir nýjasta útspilið í Orkuveitu Reykjavíkur um málefni REI vera til háborinnar skammar. Eftir tæplega fimm tíma fundarhöld í dag segir Sigrún að tillagan rýri verðgildi fyrirtækisins. Minnihlutinn lét bóka tvær athugasemdir varðandi tillöguna.

„Þetta er enn eitt dæmið um að þessi meirihluti er óstarfhæfur og tekur ákvarðanir sem eru illa ígrundaðar. Þegar það kemur einhver gagnrýni þá bregðast menn við með því að kollsteypa því sem stefnt hefur verið að. Menn hafa verið að þvælast út um allan heim að skrifa undir einhverjar viljayfirlýsingar og svo kemur þetta, þetta fólk er vanhæft," segir Sigrún Elsa.

Hún ásamt Svandísi Svavarsdóttur lét bóka tvær athugasemdir við tillöguna sem má sjá hér að neðan.

Tillagan er sundurlaus og illa ígrunduð og lyktar af flausturslegum viðbrögðum við upphlaupi í borgarfulltrúahópi Sjálfstæðismanna. Hætt er við að hún hafi neikvæð áhrif á verðmæti REI og einstakta verkefna fyrirtækisins. Einnig er líklegt að tillagan skaði samningsstöðu REI t.d. gagnvart alþjóðlegum bönkum. Auk þess sem ekki er ljóst hvort framfylgd tillögunnar geti í einhverjum tilvikum skapað REI o.þ.m. OR bótaskyldu gagnvart þriðja aðila.

Stjórnarformaður og varaformaður stjórnar eru nýkomin úr ferð sinni til Djíbútí þar sem skrifað var undir samning um tilraunboranir og viljayfirlýsingu um virkjanaframkvæmdir reynist niðurstaða tilraunaborana jákvæð.

Ekki fæst betur séð en framkomin tillaga gangi þvert á þær skuldbindingar sem stofnað var til í ferðinni.

Þessi hringlandaháttur er til skammar og vekur spurningar um hæfi og umboð formanns og varaformanns til að starfa að þessum málum.

Fulltrúar Samfylkingar og VG telja tillöguna varla tæka á stjórnarfundi OR þar sem hún varði bæði megintilgang félagsins og hafi veigamikil áhrif á starfsemi þess og falli því frekar að verksviði eigendafundar.

Seinni athugasemdin

Fulltrúar Samfylkingar og VG óska bókað að gefinn var kostur á því að taka málið út af dagskrá á fundinum þar sem það er bæði vanreifað og illa unnið og tillagan samræmist ekki niðurstöðu stýrihóps borgarráðs.

Á síðasta eigendafundi OR, sem haldinn var 15. febrúar sl., var samþykkt:

Eigendafundur Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að Reykjavik Energy Invest verði að 100% í eigu Orkuveitu Reykjavíkur og verði áfram rekið með það hlutverk að sinna þróunar- og fjárfestingarverkefnum á erlendri grund.

Því er ljóst að tillaga meirihluta stjórnar OR eðlisbreyting frá samþykktum síðasta eigendafundar. Stjórn OR getur ekki tekið fram fyrir hendurnar á eigendum hvað svo sem öllum ágreiningi í borgarfulltrúahópi Sjálfstæðismanna líður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×