Innlent

Ómerkir úrskurð héraðsdóms um dánarbú Fischers

Bobby Fischer lést hér á landi þann 17. janúar.
Bobby Fischer lést hér á landi þann 17. janúar. MYND/Pjetur

Hæstiréttur hefur ómerkt úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafnaði kröfum systursona Bobbys Fischer, fyrrverandi skákmeistara, um að dánarbú hans yrði tekið til opinberra skipta. Er málinu vísað aftur heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Systursynirnir kröfðust þess að dánarbú Fischers, sem lést þann 17. janúar hér á landi, yrði tekið til opinberra skipta. Eru helstu eignir dánarbúsins sagðar vera íbúð og innbú að Espigerði 4 auk verulegra fjármuna í banka í Sviss. Kröfu bræðranna hafnaði héraðsdómur á þeim grundvelli að hin japanska Myoko Watai segðist vera eiginkona Fischers. Það væri sýslumanns að krefjast opinberra skipta ef vafi léki á því hvort Watai hefði verið eiginkona skákmeistarans og hvort hann hefði látið eftir sig börn.

Í dómi Hæstaréttar sagði að í málinu lægi ekkert fyrir um hvort Watai hefði verið veitt leyfi til einkaskipta á dánarbúi Fischers. Þótt slíkt leyfi hefði verið veitt myndi það þó ekki fá því breytt að mönnunum tveimur, sem kvæðust vera nánustu eftirlifandi skyldmenni Fischers og hefðu lagt fram gögn um þau fjölskyldutengsl, væri heimilt að krefjast fyrir dómi opinberra skipta á dánarbúinu ef þeir vefengdu réttindi Watai til einkaskipta á dánarbúi.

Óvissa um það hvort aðrir kynnu að eiga réttindi til arfs eftir Fischer sem gengi framar réttindum systursonanna gæti ekki með réttu valdið því að héraðsdómari hafnaði þegar í stað kröfu þeirra um opinber skipti dánarbúsins. Var hinn kærði úrskurður því ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Við þetta má bæta að filippseysk kona og dóttir hennar gera kröfur í dánarbú Fischers en þær halda því fram að Fischer sé faðir stúlkunnar. Hún er sjö ára og heitir Jinky. Hana á Fischer að hafa getið með Marilyn Young árið 2001.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×